Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skera upp herör gegn verkalýðsfélögum

27.07.2022 - 14:07
epa10076465 A handout photo made available by ITV shows Conservative leadership candidates Rishi Sunak and Liz Truss (R) during 'Britain's Next Prime Minister: The ITV Debate' at Riverside Studios in London, Britain, 17 July 2022.  EPA-EFE/JONATHAN HORDLE / ITV / HANDOUT MANDATORY CREDIT: JONATHAN HORDLE / ITV / ONE MONTH FREE EDITORIAL USE / HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES/NO ARCHIVES
Rishi Sunak og Liz Truss, þingmenn Íhaldsflokksins, bítast um að verða næsti forsætisráðherra Bretlands. Mynd: EPA
Leiðtogaefni Íhaldsflokksins í Bretlandi hafa skorið upp herör gegn verkalýðsfélögum í landinu. Verkföll hafa sett svip sinn á breskt efnahagslíf síðustu mánuði, í skugga mikillar verðbólgu og rýrnandi kaupmáttar. Verkföll lestarstarfsmanna hafa sett almenningssamgöngur í uppnám síðustu vikur, lögmenn hjá hinu opinbera hafa staðið fyrir skæruverkföllum og slíkt hið sama er fyrirhugað hjá starfsmönnum Royal Mail.

Liz Truss og Rishi Sunak, fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn Boris Johnsons, keppast nú um hylli flokksbundinna Íhaldsmanna en þeir munu í næsta mánuði kjósa nýjan leiðtoga flokksins, sem jafnframt tekur við sem forsætisráðherra.

Bæði hafa þau farið hörðum orðum um verkfallsaðgerðirnar, sagt þær bitna á saklausum almenningi og haft neikvæð áhrif á hagkerfið. 

Truss hét því í gær að nái hún kjöri muni hún gera verkalýðsfélögum erfiðara fyrir að boða til verkfalls og „lama hagkerfið“. Hún vill hækka það hlutfall félagsmanna sem þarf til að samþykkja verkfallsaðgerðir úr 40% í 50%.

Eftir sem áður þarf meirihluta greiddra atkvæða til að geta boðað til verkfalls, en þröskuldurinn getur orðið til þess að meirihluti dugi ekki til, ef kosningaþátttaka er ekki nægjanleg. Þá hyggst Truss einnig lengja þann fyrirvara sem gefa þarf áður en boðað er til verkfalls, úr tveimur vikum í fjórar, og afnema skattfrelsi verkfallsbóta. Í kappræðum fulltrúanna í gær hét Rishi Sunak því sömuleiðis að hann myndi beita sér af hörku gegn verkalýðsfélögum, án þess þó að kynna útfærðar hugmyndir.

Heimilt að ganga í störf

Fyrr í mánuðinum samþykkti breska þingið að afnema lagaákvæði um bann við því að ganga í störf fólks í verkfalli. Þetta þýðir að héðan í frá verður fyrirtækjum heimilt að ráða starfsmenn tímabundið til að sinna störfum meðan starfsmenn eru í verkfalli. Veikir það verkfallsrétt ósérhæfðra starfsmanna til muna, en hefur minni áhrif á sérhæfðar stéttir á borð við lestarstjóra. 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV