Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rúmlega 470 féllu, særðust eða hurfu á 10 dögum

epaselect epa10091224 A girl who lived in Cite Soleil and was displaced due to the gang war in her neighborhood is seen in Port-au-Prince, Haiti, 23 July 2022 (issued 25 July 2022). Hundreds of minors have fled from Cite Soleil, a municipality in the metropolitan region of Port-au-Prince, the scene of a bloody war between armed gangs in recent weeks. There the clashes have left more than a hundred dead and thousands of new displaced, according to humanitarian and human rights organizations.  EPA-EFE/Johnson Sabin
Þessi unga stúlka er í hópi hundraða barna sem hrökklast hafa frá heimilum sínum í fátækrahverfinu Cite Soleil í Port-au-Prince vegna blóðugra átaka glæpagengja sem þar bítast um yfirráðin Mynd: EPA-EFE - EFE
Rúmlega 470 manns féllu, særðust eða hurfu í blóðugum og harðvítugum átökum glæpagengja í Port-au-Prince, höfuðborg Haítí, á rúmri viku fyrr í þessum mánuði. Þetta kom fram í máli Farhan Haq, eins af talsmönnum Antonios Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í gær.

Haq upplýsti fréttamenn um mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna í fátækrahverfum Port-au-Prince og sagði hjálparstarfsfólk samtakanna hafa dreift þar mat sem ætti að nægja um 7.000 manns í heila viku, drykkjarvatni og sérstökum neyðarpökkum með undirstöðuvarningi á borð við hreinlætis- og ungbarnavörur, plastdúk og efni til bráðabirgðaviðgerða á húsum.

Þá greindi hann frá því að samkvæmt heimildum samtakanna hefðu ekki færri en 471 látið lífið, særst eða horfið í átökum glæpagengja í höfuðborginni dagana 8. - 17. júlí síðastliðinn. Ekki kom fram hversu mörg í þessum hópi hefðu fallið. Minnst 3.000 manns hafa flúið heimili sín vegna óaldarinnar í höfuðborginni, sagði Haq, þar á meðal hundruð fylgdarlausra barna.

Sjá einnig: Minnst 89 myrt í gengjastríði á Haítí

Þá sagði hann minnst 140 hús hafa verið eyðilögð í átökum síðustu vikna og mánaða, mörg þeirra með eldi. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er lítið sem ekkert, að sögn Haqs, og viðvarandi skortur ríkir á mat og hreinu drykkjarvatni.

Kynferðisbrotum á konum og stúlkum fjölgar og ungir drengir eru vélaðir í glæpagengin 

Ulrika Richardson, sem stýrir hjálpar- og mannúðarstarfi Sameinuðu þjóðanna á Haítí, brýnir jafnt glæpagengin sem yfirvöld á Haítí til að binda enda á vargöldina í landinu og tryggja óhindrað aðgengi  borgara að læknis- og neyðaraðstoð jafnt hjálparsamtaka sem opinberra aðila.

Richardson greindi frá því á reglulegum upplýsingafundi að almenningi á Haítí sé enn stöðug hætta búin og erfitt að tryggja öryggi hans. Tilkynningum um kynferðisbrot á konum og stúlkum í borginni hafi fjölgað að undanförnu, auk þess sem kornungir piltar séu í vaxandi mæli vélaðir og þvingaðir til liðs við gengin.