Hættulegt ef gluggar opnast of mikið - líka á jarðhæð

Mynd með færslu
 Mynd: RUV/Beggi - RUV
Mikilvægt er að foreldrar gangi úr skugga um að öryggislæsingar á gluggum í heimahúsum séu samkvæmt gildandi reglum og viðurkenndum viðmiðum, segir verkefnastjóri hjá Miðstöð slysavarna barna. Ábyrgð gluggaframleiðenda og húsbyggjenda er jafnframt mikil, sem og opinberra eftirlitsaðila, sem gegna því hlutverki að tryggja öryggi nýbygginga.

Í framhaldi af atviki sem varð í fjölbýlishúsi í Reykjavík í síðustu viku, þar sem barn á öðru aldursári féll út um glugga á fjórðu hæð, hefur öryggi barna í heimahúsum verið til umfjöllunar enda viðvarandi viðfangsefni foreldra og forráðamanna og huga að öryggi barna sinna. 

Barnið var flutt á bráðamóttöku til aðhlynningar eftir fallið. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hlaut það ekki alvarleg beinbrot, en hefur verið undir eftirliti lækna vegna atviksins.

Foreldrar vakni við alvarleg atvik

Herdís Storgaard verkefnastjóri hjá Miðstöð slysavarna barna, segir að alvarleg atvik líkt og það sem hafi orðið í síðustu viku, verði oft til þess að foreldrar taki þessi mál til skoðunar. Það sé jákvætt, enda leynist margvíslegar hættur í heimahúsum sem mikilvægt er fyrir foreldra að vera meðvitaðir um.

„Ástandið á gluggum er alls konar, það eru gamlar byggingar þar sem kannski hefur ekki verið skipt um glugga. Þá þekkjum við það að fagið er þannig að það getur opnast endalaust út. Stundum er búið að setja á barnalæsingu til þess að hindra að börn geti dottið út,“ segir Herdís. Fræðsla til foreldra varðandi þessi mál sé mikilvæg á öllum stigum uppeldisins, enda breytist hætturnar eftir því sem barnið eldist.

Hún segir að í nýrri byggingum séu öryggismálin í betra horfi en í þeim eldri, þó ekki megi taka því sem sjálfsögðum hlut. Ábyrgð gluggaframleiðenda og húsbyggjenda sé mikil, sem og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem sinni eftirlitinu.

„Byggingarreglugerðin er mjög ströng á þessu, að það sé ekki hægt að opna gluggana nema ákveðið langt, sem eru tíu sentimetrar. Þá er oft innbyggt öryggiskerfi sem maður þarf að hafa talsvert fyrir sem fullorðinn einstaklingur til þess að geta opnað meira en þessa tíu sentimetra.“

Þetta eigi þó ekki við jarðhæðir eða íbúðir í kjallara, heldur eigi reglugerðin við íbúðir á fyrstu hæðum og þar fyrir ofan.

Gluggar í eldri húsum geti verið varasamir

Herdís, sem sat í nefnd um breytingar á byggingarreglugerð árið 1998, þegar bilið var fært úr 13 sentimetrum í tíu sentimetra, segir að fólk sem búi í eldri húsum verði sérstaklega að vera á varðbergi, enda hafi gluggum víða ekki enn verið skipt út. Reglugerðin sé ekki afturvirk og því sé aðbúnaður íbúða sem byggðar voru fyrir breytingar ekki ólöglegur.

En hvaða ráð hefur hún fyrir foreldra sem búa í eldri húsum?

„Endilega að fá sér öryggislæsingar sem eru góðar. Það eru ýmsar öryggislæsingar til og sumar standast ekki gildandi staðla. Þannig að fólk þarf að ganga úr skugga um það að það geti fundið í leiðbeiningum með vörunni, eða inni á netinu hjá framleiðanda að þessi vara standist þær kröfur sem gerðar eru, segir Herdís. Hún segir að því miður sé verið að selja læsingar sem stór hluti barna geta opnað. Það er falskt öryggi, segir Herdís.

Mörg dæmi um að börn ráfi út um nætur

Herdís segir að vandinn eigi ekki eingöngu við um íbúðir á efri hæðum húsa. Fólk sem býr í kjallaraíbúðum og á fyrstu hæðum hafi lent í því að börn ráfi út um miðjar nætur út um opna glugga eða vegna óvandaðra læsinga.

Mikilvægt sé að fólk sem leyfi börnum að sitja eða leika sér í gluggakistum og nálægt opnanlegum gluggum, tryggi öryggi barnanna og brýni fyrir þeim að gluggarnir geti reynst hættulegir. Bili læsingar, megi ekki draga það að skipta um og laga gluggann.

„Börn geta vaknað á nóttunni og hafa gert það. Í staðinn fyrir að fara inn til foreldra sinna, þá hafa þau hreinlega skriðið út um gluggann, af því að húsnæðið er á jarðhæð eða í kjallara. Og lítil börn, bara mjög ung börn, meira að segja undir tveggja ára, hafa fundist ráfandi um hverfið og stundum á hættulegum umferðargötum af því að þau hafa sloppið út um miðja nótt. Þannig að fólk þarf líka að huga að þessu. Þetta snýst ekki bara um að barnið geti dottið út, heldur getur barnið strokið,“ segir Herdís Storgaard.