Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Einboðið að stöðva hvalveiðar sé ekki farið að lögum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Matvælaráðherra segir það einboðið að stöðva hvalveiðar komi í ljós að þar sé ekki farið eftir lögum um velferð dýra. Hún hyggst nú skoða ábendingar sjávarverndunarsamtaka um ómannúðlegar veiðiaðferðir.

Hvalur hf fékk ótímabundið leyfi til vinnslu hvalaafurða í fyrra og hóf hvalveiðar fyrir um mánuði síðan. Heimilt er að veiða yfir 200 langreyðar og yfir 200 hrefnur hér við land á ári.

Sjávarverndunarsamtökin Hard to Port birtu nýverið myndefni sem sýnir langreyði með tvo skutla í sér. En samkvæmt verklagsreglum um hvalveiðar ber að draga hval að borði ef skot geigar og aflífa hann sem fyrst með skoti í heila.

Sjá einnig: Erfitt hefur verið að tryggja dýravelferð við hvaladráp

„Ég hef náttúrulega fylgst með þessu í miðlum eins og aðrir og það er ekki síst vegna ábendinga af þessu tagi sem mér finnst ástæða til að kalla eftir því að Matvælastofnun fái gögn um það hvernig þessi aflífun fer fram,“ segir Svandís.

Hún hefur lagt til breytingu á reglugerð um hvalveiðar sem kveður á um að  einn úr áhöfn hvalveiðiskips verði tilnefndur dýravelferðarfulltrúi og að sá sæki námskeið sem Matvælastofnun samþykkir um velferð hvala og hvaða atriði þurfi að hafa í huga þegar þeir eru aflífaðir. Sá myndi taka veiðina upp á myndband og skila til MAST.

Spurð hvort þetta sé besta leiðin til að auka eftirlit - að áhöfnin hafi eftirlit með sjálfri sér - segir Svandís að betra væri ef fulltrúi MAST eða yfirdýralæknis væri um borð. „En fyrsta skrefið væri þetta; að tryggja að til séu myndbandsupptökur af hverri einustu veiði.“

En þetta er eitthvað sem myndi gerast síðar - hvað með yfirstandandi veiðitímabil og verður það, sem þessi samtök eru að halda fram, skoðað? „Já, það er minn vilji að þetta verði skoðað. “

Hvenær verður það gert og hvernig? „Við erum með þetta á dagskrá núna.“

Ef þessi skoðun leiðir í ljós að dýrin eru ekki aflífuð á mannúðlegan hátt - kemur þá til greina að stöðva veiðarnar? „Mér finnst það algerlega einboðið að ef ekki er farið að dýravelferðarlögum þá á þessi atvinnugrein ekki framtíð fyrir sér.“