Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja Evrópureglur um hámarkshita á vinnustað

epa10088219 A digital street thermometer displays the air temperature at 43 degrees Celsius, in Nagykanizsa, southwestern Hungary, 23 July 2022. The current heatwave in Hungary is expected to peak on 23 July, when temperatures have exceeded the 40 degrees Celsius mark in several parts of the country.  EPA-EFE/Gyorgy Varga HUNGARY OUT
Hitamælir í bænum Nagykanizsa í Ungverjalandi suðvestanverðu, 23. júlí 2022. Mynd: epa
Evrópusamband verkalýðsfélaga, ETUC, vill að settar verði reglur um hámarkshita á vinnustað og hafa sent framkvæmdastjórn Evrópusambandsins erindi þar að lútandi. Tilefnið er andlát þriggja verkamanna sem létust við störf sín í Madríd, höfuðborg Spánar, þegar mikil hitabylgja gekk þar yfir í liðinni viku.

Claes-Mikael Stahl, varaformaður ETUC, segir að verkafólk sé berskjaldað fyrir afleiðingum yfirstandandi loftslagshamfara dag hvern og þurfi „vörn gegn vaxandi ógn vegna ofurhita“ sem það sé æ oftar útsett fyrir.

Margt fólk í hættu en fá lönd með reglur

Rannsóknir hafa sýnt fram á samband á milli mikils hita á vinnustað og fjölda krónískra sjúkdóma og aukinnar hættu á vinnuslysum. Samt hafa aðeins þrjú lönd innan Evrópusambandsins, Belgía, Ungverjaland og Lettland, innleitt einhverjar reglur um þetta en miða öll við mismunandi hámarkshita og -vinnutíma.

Rannsókn sem unnin var fyrir sambandið leiddi í ljós að 23 prósent verkafólks í Evrópusambandsríkjum vinnur í miklum hita fjórðung af vinnutímanum eða meira. Hlutfallið er enn hærra ef aðeins er horft til verkafólks í landbúnaði og iðnaði, þar sem 36 prósent eru útsett fyrir miklum hita og í byggingariðnaði eru það 38 prósent.

Í Frakklandi, þar sem engar reglur gilda um hámarkshita á vinnustöðum, má rekja dauða minnst 12 verkamanna árið 2020 til allt of mikils hita.

Þrír dóu á Spáni í liðinni viku

Á Spáni, þar sem þrír verkamenn í ólíkum störfum dóu í liðinni viku, gilda ákveðnar reglur um hámarkshita - en aðeins fyrir ákveðnar starfsstéttir. Þær náðu ekki yfir sextugan mann sem dó þegar hann var að hreinsa götur höfuðborgarinnar í nær 40 stiga hita í síðustu viku.

Þær náðu heldur ekki yfir hálfsextugan starfsmann í vöruskemmu í úthverfi borgarinnar, sem dó úr hitaslagi á laugardag, né heldur um verkamann sem dó af sömu orsökum í öðru úthverfi síðastliðinn fimmtudag.

Í frétt AFP segir að verkalýðsfélög hafi í síðustu viku fengið Madrídarborg til að samþykkja, að ekki yrði unnið að gatnahreinsun ef hitinn fer yfir 39 stig.

Veðrið virðir engin landamæri

Stahl segir mikilvægt að Evrópusambandið setji sameiginleg lög og reglur um hámarkshita á vinnustöðum, þar sem „veðrið virðir engin landamæri. Stjórnmálamenn í sínum loftkældu skrifstofum geta ekki haldið áfram að hundsa hættuna sem steðjar að okkar viðkvæmasta verkafólki.“