Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Minnst 17 drukknuðu þegar bát hvolfdi við Bahamaeyjar

25.07.2022 - 01:39
epa06201145 A woman runs past a barricade during a demonstration in Port-au-Prince, Haiti, 12 September 2017. Haitian Police dispersed hundreds of demonstrators who protested against the approval of the National Budget by the Parliament, considering that
Fjöldi Haítifólks freistar þess í hverri viku að flýja óöldina og örbirgðina sem ríkt hefur á Haíti árum saman og versnaði enn eftir jarðskjálftann mikla 2021 Mynd: EPA
Minnst sautján fórust þegar báti með yfir 40 manns innaborðs hvolfdi undan ströndum Bahamaeyja aðfaranótt sunnudags. Þau sem drukknuðu voru öllu haítískir ríkisborgarar; 15 konur, eitt barn og einn karlmaður. 25 var bjargað og minnst eins er saknað. Algengt er að smyglarar flytji fólk frá Haítí til Bahama og þaðan áfram til Flórída í Bandaríkjunum.

Frumrannsókn á slysinu bendir til þess að fólkið hafi stigið um borð í hraðbát sem sigldi frá New Providence, fjölmennustu Bahama-eyjunni, um klukkan eitt eftir miðnætti að staðartíma og ætlunin hafi verið að sigla til Miami í Flórída.

Talið er að bátnum hafi hvolft í úfnum sjó um sex mílur frá landi og óstaðfestar heimildir herma að allt að 60 manns hafi verið um borð þegar hann lagði frá landi. Yfirvöld á Bahama segja rannsókn hafna á þeirri glæpsamlegu smyglstarfsemi sem leitt hafi til dauða flóttafólksins.

Kallar eftir þjóðarsátt til að leysa vandamál og stöðva fóklsflótta

Ariel Henry, forsætisráðherra Haítí, segir í færslu á Twitter að þessi harmleikur „hryggi alla haítísku þjóðina.“ Hann kallar eftir „þjóðarsátt um að leysa þau vandamál sem knýja bræður okkar, systur og börn flýja landið okkar.“

Haítí er fátækasta ríki vesturálfu. Þar eru innviðir allir í molum, spilling landlæg og glæpagengi fara þar sínu fram án þess að yfirvöld fái neitt við ráðið.

Efnahags- og stjórnmálaástandið í landinu var eilítið farið að skána þegar feikiöflugur jarðskjálfti, 7,2 að stærð, reið yfir landið árið 2021. Á þriðja þúsund manns lét lífið í skjálftunum og á annan tug þúsunda slösuðust.

Ekki færri en 650.000 þurftu á bráðri neyðaraðstoð að halda og hátt í 140.000 byggingar skemmdust eða eyðilögðust í skjálftanum og segja má að innviðir landsins og samfélagið allt hafi hrunið um leið.