Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjórir menn teknir af lífi í Mjanmar í morgun

25.07.2022 - 05:34
epa07685171 Female soldiers of National Democratic Alliance Army (NDAA) march in a parade during the celebration to mark the 30th anniversary of Eastern Shan State Special Region 4, at border city Mong La, Eastern Shan State, Myanmar, 30 June 2019. Shan State Special region 4 (also called Mong La autonomous region) celebrates its 30th anniversary celebrations in Mong La, one of the major cities in Golden Triangle Region which was built from a small village to become Myanmar's capital of gambling.  EPA-EFE/LYNN BO BO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjórir menn voru teknir af lífi í Mjanmar í morgun, þar af tveir menn sem voru virkir í andstöðu sinni gegn herforingjastjórninni sem þar rændi völdum á síðasta ári. Ríkisfjölmiðlar í Mjanmar greina frá þessu. Aftökurnar í morgun voru þær fyrstu sem framkvæmdar hafa verið í landinu um langt árabil.

Rappari og þingmaður

Annar stjórnarandstæðinganna, Phyo Zeya Thaw, er rappari og fyrrverandi þingmaður Lýðræðisfylkingarinnar, flokki friðarverðlaunahafans og stjórnmálaleiðtogans Aung San Suu Kyi.

Rapptextar hans hafa árum saman farið mjög fyrir brjóstið á fyrri herforingjastjórn og gera það enn. Að auki er honum gefið að sök að hafa skipulagt mannskæðar árásir á her- og öryggissveitir herforingjastjórnarinnar.

Rithöfundur og aktívisti

Hinn stjórnarandstæðingurinn er rithöfundurinn og aktívistinn Ko Jimmy, sem var pólitískur fangi í samtals 15 ár í valdatíð fyrri herforingjastjórnar. Báðir voru þeir ákærðir, dæmdir og teknir af lífi fyrir hryðjuverkastarfsemi.  

Hinir mennirnir tveir sem teknir voru af lífi hlutu dauðadóm fyrir að hafa myrt konu í Yangon, sem sögð er hafa verið uppljóstrari herforingjastjórnarinnar. 

Yfir eitt þúsund manns hafa fallið í valinn í mótmælum og öðrum aðgerðum gegn herforingjastjórninni í Mjanmar frá því að hún rændi völdum í febrúar 2021.