Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Enn óvíst hver stóð að baki sprengjuhótuninni

Mynd: Stefán Jón Ingvarsson / RÚV
Enn hefur ekki tekist að hafa uppi á farþega sem talinn er hafa skilið eftir sprengjuhótun á salerni flugvélar sem snúið var til Keflavíkurflugvelli síðdegis. Sprengjusérfræðingar hafa leitað af sér allan grun, eftir rúmlega fimm klukkustunda vinnu sem lauk á tíunda tímanum. Öllum farþegum vélarinnar hefur verið boðin áfallahjálp.

Vélin, sem er airbus þota frá þýska flugfélaginu Condor, var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til Seattle í Bandaríkjunum þegar áhöfnin varð vör við hótunina. Hún var þá yfir Grænlandi og samstundis snúið við til Íslands. 

„Við fáum neyðarboð rétt fyrir klukkan fjögur frá Neyðarlínunni og samkvæmt viðbragðsáætlun setjum við okkar kerfi í gang. Þetta er gríðarlega umfangsmikil aðgerð,” segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Um leið og vélinni var lent var hún rýmd og allir farþegar fluttir með flugrútu á lokað svæði á Keflavíkurflugvelli. Sprengjusveit ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar hafa síðan þá verið að störfum. 

Hvers eðlis var þessi hótun?

„Það er skrifaður texti á spegil á hurð í vélinni, hótunin berst innan úr vélinni þannig að það er verkefni lögreglu núna í framhaldi af þessu að hafa uppi á þeim sem þetta gerði,” segir Úlfar. Enginn liggi undir grun að svo stöddu. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var búið að skrifa BOMB eða SPRENGJA á spegilinn. 266 farþegar voru um borð og mun lögregla ræða við þá alla. Þá er unnið að því að gegnumlýsa og fara í gegnum allan farangur. Eins er Rauði krossinn á svæðinu og veitir áfallahjálp. 

Úlfar segir óljóst hvenær farþegarnir fá að snúa aftur til baka. Þá sé sömuleiðis óljóst hvort þeir fái að gera það áður en rannsókn ljúki.

 

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV