Skjálfti að stærð 4,9 við Bárðarbungu

24.07.2022 - 14:08
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Jarðskjálfti, 4,9 að stærð, varð um fimm kílómetra norðaustur af Bárðarbungu rétt fyrir klukkan tvö, samkvæmt tölum á vef Veðurstofunnar. Skjálfti að stærð 4,4 varð á svipuðum slóðum skömmu fyrr.

Fjöldi smærri eftirskjálfta hafa fylgt í kjölfar þeirra en engin merki eru um óróa, segir í tilkynningu frá Veðurstofu.

„Síðasti skjálfti af þessi stærð var í janúar 2020 og þar áður í janúar 2018. Skjálftar af stærð 4 og stærri eru ekki óalgengir í Bárðarbungu og alls hafa um 50 mælst frá því að eldgosi í Holuhrauni lauk í febrúar 2015,“ segir í tilkynningunni enn fremur.

Sérfræðingur hjá Veðurstofu segir í samtali við fréttastofu að skjálftar af þessari stærð hafi orðið í Bárðarbungu af og til frá lokum gossins í Holuhrauni og því um að ræða áframhaldandi virkni eins og verið hefur síðustu ár. Engin merki séu um að gos sé við það að hefjast eða meiriháttar skjálftahrina að fara af stað.

Þórgnýr Einar Albertsson