Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Þungunarrof áfram löglegt í Kentucky - í bili

epa10032769 Abortion rights activists protest outside the Supreme Court in Washington, DC, USA, 24 June 2022. The US Supreme Court ruled on the Dobbs v Jackson Women's Health Organization, overturning the 1973 case of Roe v Wade that guaranteed federal abortion rights.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA
Þungunarrof verður löglegt í Kentucky enn um sinn, þrátt fyrir að lög um hið gagnstæða hafi tekið gildi í ríkinu daginn sem hæstiréttur Bandaríkjanna ógilti hálfrar aldar gamlan dóm sem tryggði rétt kvenna til þungunarrofs. 30. júní samþykkti Mitch Perry, dómari við umdæmisdómstól í Kentucky, lögbann á að lögunum yrði framfylgt og í gær ákvað hann að lögbannið skyldi framlengt.

Um leið úrskurðaði hann að kæra tveggja læknastofa sem boðið hafa upp á þungunarrof ætti rétt á sér. Í kærunni eru leidd að því rök að algjört bann við þungunarrofi og lög sem banna þungunarrof eftir um það bil sex vikna meðgöngu stangist á við stjórnarskrá Kentuckyríkis.

Perry tekur undir þetta í úrskurði sínum og segir miklar líkur á að ný-innleitt þungunarrofsbannið brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um sjálfsákvörðunarrétt kvenna, rétt þeirra til einkalífs, og trúfrelsi.

Daniel Cameron, ríkissaksóknari Kentuckyríkis og frambjóðandi í ríkisstjórakosningunum í haust, lýsti því yfir að hann muni kæra lögbannsúrskurðinn. Sú fullyrðing Perrys, að stjórnarskrá Kentucky tryggi rétt til þungunarrofs standist enga skoðun.