Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þriðja hitabylgja sumarsins í Kína

23.07.2022 - 04:20
epa10068379 Children play in a public fountain on a hot day in Shanghai, China, 13 July 2022. China issued warnings as the temperature reached over 40 degrees Celsius in more than 80 cities on 13 July amid a countrywide heatwave.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
Hver hitabylgjan hefur rekið aðra í Kína í sumar. Þessi mynd er tekin 13. júlí, í hitabylgju sem stóð frá 5. - 17. júlí. Mynd: epa
Hitabylgja ríður yfir stór svæði í Kína í dag og næstu daga og spáð er um og yfir 40 stiga hita víða um land. Þetta er þriðja og sums staðar fjórða hitabylgja sumarsins á þessum slóðum, segir í frétt The Guardian. Í nokkrum borgum við og nærri ströndinni hefur verið lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi vegna hitans og inni í landi er varað við hættu á því að ár flæði yfir bakka sína og stíflur gefi sig vegna mikilla leysinga og jökulbráðar.

Veðurfræðingar áætla að þessi hitabylgja verði álíka heit og íþyngjandi og síðasta bylgja, sem gekk yfir landið 5. - 17. júlí. Þó er talið að hitinn fari yfir 40 stig á fleiri svæðum að þessu sinni.

Orkumálaráðuneytið varar við hættu á ofálagi á orkukerfi landsins vegna mikillar notkunar á loftkælingu á heimilum og vinnustöðum. Jafnframt er varað við aukinni hættu á gróðureldum á stórum svæðum.

Í frétt The Guardian segir að sumarið hafi verið sérlega heitt í Kína það sem af er. Á vatnasviði Gula fljótsins og Yangtze fljótsins, þar sem margar og fjölmennar iðnaðarborgir standa, voru dagarnir þar sem gefnar voru út hitaviðvaranir á tímabilinu 1. júní til 20. júlí tíu fleiri en í meðalári. Spáð er allt að 50 stiga hita í eyðimerkurborginni Turpan í Xinjiang í Austur-Kína í næstu viku.