Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Syndir frá Vestmannaeyjum til Landeyjasanda

22.07.2022 - 17:41
Mynd með færslu
 Mynd: Synt frá Vestmannaeyjum - Barnaheill
Hafstraumar við suðurströnd landsins voru hagfelldir til sjósunds þegar klukkuna vantaði korter í fjögur í dag. Veðrið var þokkalegt í fjörunni í Eyjum, hiti 10 stig, örlítil gola, um fjórir metrar á sekúndu, þoka og smá skúrir með köflum. Ekki of hlýtt og ekki allt of kalt í sjóinn.

Sigurgeir Svanbergsson sjósundkappi lét verða af því sem flestum myndi þykja fífldirfska og stakk sér til sunds í úfnu hafinu þrátt fyrir öldugang við Eiðið í Vestmannaeyjum. Förinni heitið yfir á meginlandið, um tólf kílómetra leið yfir hafið að Landeyjasöndum. 

Ef sundið gengur samkvæmt áætlun nær Sigurgeir landi á milli níu og tíu í kvöld, eftir um fimm til sex klukkustunda sjósund.

Hugurinn klár

Sigurgeir sagði í samtali við fréttastofu, þegar hann tók út aðstæður í fjörunni áður en hann lagði af stað, að hugurinn væri klár. Eina verkefnið væri að synda þangað til hann væri aftur kominn á þurrt. En hver er tilgangurinn með sundinu?
 
„Í fyrsta lagi finnst mér þetta bara spennandi. Bara mjög spennandi hugmynd að láta reyna á þetta. Svo er góður málstaður líka inni í þessu. Ég er að safna áheitum hjá Barnaheillum fyrir börn á átaksvæðum um allan heim.“

Hann hefur áður tekist á hendur álíka þrekraun, þegar hann synti þvert yfir Kollafjörð um 12 kílómetra leið, frá Kjalarnesi yfir fjörðinn til Reykjavíkur. 

Sú sundferð tók um níu klukkustundir og gekk ekki áfallalaust fyrir sig. Fylgdarbátur Sigurgeirs varð vélarvana á leiðinni sem tafði sundið um klukkustund. 

Kuldaþjálfun og mikill undirbúningur

Sigurgeir hefur undirbúið Eyjasundið vikum saman og segir undirbúninginn ekki eingöngu felast í því að gera líkamann tilbúinn fyrir slaginn. Hugarfarið verði ekki síður að vera rétt.

„Undirbúningurinn hefur snúist um það að viðhalda kuldaþjálfun. Þannig að ég er að fara í mikinn kulda og reyna að vera lengi. Og miklu meiri kulda heldur en sjórinn er hér. Svo fór ég og lærði skriðsund líka.“

Sigurgeir áréttar að hugarástandið verði að vera rétt fyrir slíka þrekraun, ekki síður en líkamlegt ástand og sundhæfni.

„Það er það sem mér finnst mest áhugavert við þetta allt saman. Þetta er eitthvað sem ég stunda, að setja sjálfan mig í aðstæður sem flestir myndu kannski telja ómögulegar. Og sjá hvert hugurinn fer þegar maður er undir miklu álagi. Ég myndi segja að þetta væri öflugasta prófraunin fyrir það, löng vegalengd í sjósundi og sérstaklega á opnu hafi,“ segir sundkappinn.

sigurdurk's picture
Sigurður Kaiser
Fréttastofa RÚV