Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Segir vegtolla koma verst niður á fátækum

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, þykir hart sótt að bifreiðaeigendum með áformum um lagningu hinna ýmsu vegtolla. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra birti nýverið í samráðsgátt stjórnvalda áform um stofnun opinbers hlutafélags um samgönguinnviði, sem hefði það hlutverk að heimta gjald fyrir notkun á vegum og jarðgöngum.

Inga segir að aukin skattlagning fyrir afnot af samgönguinnviðum komi verst niður á fátækustu hópum landsins. Þar að auki segir hún illa farið með þær skatttekjur sem nú þegar eru heimtar af bifreiðaeigendum. Inga var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun.

Segir olíufélög okra

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, var einnig gestur Morgunútvarpsins síðar í þættinum og tók hann í sama streng og Inga. Hann vill þannig meina að íslensk olíufélög rukki of hátt verð fyrir eldsneyti. Þau rjúki til og hækki verð þegar heimsmarkaðsverð hækkar en séu sein til að lækka þegar heimsmarkaðsverð lækkar eins og gerst hefur að undanförnu.

„Þetta er bara klassískt dæmi um það sem íslenskir neytendur láta bjóða sér, að búa við fáokun og þetta á við um öll olíufélögin. Þau eru greinilega saman í liði, það er voða gaman hjá þeim núna, það er hægt að taka töluvert fleiri krónur á hvern lítra og það mun skila sér í góðum ársreikningum. En það vantar aðhaldið frá markaðinum og þessi fákeppni hún skaðar neytendur illilega. Og svo fara menn að tala um birgðastöðu eða að þeir hafa keypt á röngum tíma, en þegar þeir hækkuðu í kjölfar heimsmarkaðshækkunar, þá var ekki talað um góðar birgðir eða eitthvað slíkt. Þannig þetta er því miður eins og gömul mantra: Þeir eru fljótir upp en seinir niður.”

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Verð í kringum Costco nær því sem teljast má eðlilegt

Runólfur segir að álagning olíufélaga á þeim fáu stöðum þar sem eldsneyti er verðlagt um 20 til 30 krónum lægra en annars staðar, eins og til dæmis á bensínstöðvum í kringum Coscto í Kauptúni þar sem verð er lágt, sé mun nær því sem eðlilegt má telja. Runólfur segist geta vísað til verðlags í Danmörku þessu til stuðnings.

„Í Danmörku er borgað svipað eða jafnvel meira í skatt af hverjum bensínlítra miðað við það sem við erum að borga. Álagning hér er umtalsvert hærri og við getum skilið eitthvað af því af því við erum í dreifbýlu landi og með lítinn markað. En því miður er aðhaldið ekki sem skyldi. Það var svona jákvætt fyrir nokkrum árum þegar erlendur auðhringur hóf verslunarrekstur hérna og fór að selja eldsneyti og það var aðhald gagnvart íslensku olíufélögunum," segir Runólfur.

Vill innleiða kílómetragjald

Runólfur segir einnig að Félag íslenskra bifreiðaeigenda hafi í mörg ár talað fyrir innleiðingu svokallaðs kílómetragjalds. Skattheimta fyrir afnot af samgönguinnviðum yrði þannig háttað eins og fyrir notkun af rafmagni eða vatni, svo dæmi séu nefnd. Runólfur segir einnig að ljóst sé að orkuskipti hér á landi kalli á nýja nálgun í skattheimtu fyrir afnot af samgönguinnviðum.