Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fastir í verbúð við austurströnd Grænlands

21.07.2022 - 19:48
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Níu grænlenskir fiskveiðimenn sem hafa haldið til í lítilli verbúð í um tvær vikur, sitja þar fastir vegna hafíss sem þekur ströndina á milli þorpanna Tasiilaq og Ittoqqortoormiit við austurströnd Grænlands.

Tveir bátar mannanna níu, komast hvorki lönd né strönd vegna hafíssins. Þeir eru að verða uppiskroppa með mat og aðrar nauðsynjar og hafa kallað eftir aðstoð björgunarsveita.

Á vef grænlenska fjölmiðilsins Sermitsiaq kemur fram að hópurinn hafi lagt út af Tasiilaq þann 7. júlí og gert tilraun til að sigla meðfram ströndinni en bátarnir tveir hafi setið fastir á ísbreiðunni síðan. 

Björgunarþyrla sem flytja átti nauðsynjar og vistir til fólksins í morgun, komst ekki á loft vegna þoku sem umlykur fjörðinn og skilyrði til björgunar með þyrlunni því afar erfið.

Lögreglan á svæðinu vinnur að því ásamt flugfélaginu Air Greenland að koma vistum til fólksins með því að láta þær falla úr þyrlu yfir verbúðinni, að því gefnu að þokunni létti um stund.

sigurdurk's picture
Sigurður Kaiser
Fréttastofa RÚV