Sunak og Truss heyja einvígi um leiðtogasætið

epa10076465 A handout photo made available by ITV shows Conservative leadership candidates Rishi Sunak and Liz Truss (R) during 'Britain's Next Prime Minister: The ITV Debate' at Riverside Studios in London, Britain, 17 July 2022.  EPA-EFE/JONATHAN HORDLE / ITV / HANDOUT MANDATORY CREDIT: JONATHAN HORDLE / ITV / ONE MONTH FREE EDITORIAL USE / HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES/NO ARCHIVES
Rishi Sunak og Liz Truss, þingmenn Íhaldsflokksins, bítast um að verða næsti forsætisráðherra Bretlands. Mynd: EPA
Rishi Sunak fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands og Liz Truss utanríkisráðherra takast á um hvort þeirra verður næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Þau tvö hlutu flest atkvæði í fimmtu og síðustu umferð atkvæðagreiðslu meðal þingmanna flokksins, sem lauk fyrir stundu.

Atkvæði féllu þannig að Sunak hlaut 137 og Truss 113. Penny Mordaunt hlaut 105 atkvæði og er fallin úr keppni. Þetta var tilkynnt klukkan þrjú af Sir Graham Brady, formanni 1922-nefndar flokksins, sem hefur yfirumsjón með valferlinu.

  • Rishi Sunak 137 atkvæði
  • Liz Truss 113 atvæði
  • Penny Mordaunt 105 atkvæði

Lokakafli leiðtogakjörsins er þar með hafinn og flokksfólk Íhaldsflokksins fær nú aðkomu að einvíginu um hver verður arftaki Borisar Johnsons og næsti forsætisráðherra Bretlands. Niðurstöður liggja fyrir þann 5. september næstkomandi. 

Truss leiðir í veðbönkum

Samkvæmt veðbönkum í Bretlandi, sem gjarnan eru snöggir að taka á móti veðmálum um hvaðeina sem gengur á í bresku þjóðlífi, nýtur Liz Truss meiri vinsælda og er þar með talin líklegri til að fara með sigur af hólmi í einvígi þeirra Rishi Sunak. Líkur Truss eru 8 á móti 15 en líkur Sunak eru 5 á móti fjórum 4, á þessari stundu.

Margt getur þó gerst næstu vikurnar og kosningabarátta þessara tveggja leiðtogaefna varla hafin. Deilur þeirra um áherslur og stefnu hafa þó ekki farið leynt síðustu daga, sérstaklega um skattamál og ríkisútgjöld.

Sunak segist vilja fara varlega í loforð um skattalækkanir og að ekki gangi að lofa útgjöldum sem ekki sé innistæða fyrir, á meðan Truss hefur talið rétt að lækka skatta, jafnvel þótt hún hafi verið gagnrýnd fyrir að gera ekki grein fyrir því hverju eigi fórna á móti í útgjöldum ríkisins.

Einsleitur kjósendahópur

Það verða þó ekki veðbankar sem taka ákvörðun um næsta leiðtoga flokksins, því almennir flokksmenn fá nú senda atkvæðaseðla heim með pósti. Þeir voru um 160 þúsund í síðasta leiðtogakjöri árið 2019, en hefur fjölgað á kjörtímabilinu og eru taldir vera allt að 200 þúsund.

Niðurstöður rannsóknar Mile End Institute sem The Guardian birtir leiðir í ljós að 44% meðlima Íhaldsflokksins eru yfir 65 ára, 97% þeirra eru af hvítum uppruna og 54% flokksfólks býr í Lundúnum og Suður-Englandi.

Þakka traustið í tístum

Frambjóðendurnir þurfa því að afla sér stuðnings víðar en í þingflokknum á næstu vikum. Rishi Sunak sendi kjósendum skilaboð í færslu á Twitter í kjölfar þess að úrslitin voru kunngjörð, þar sem hann þakkaði kollegunum fyrir traustið.

Liz Truss segist tilbúin í slaginn og þakkar sömuleiðis traustið.

 Penny Mordaunt hvetur til samstöðu og þakkir stuðningsfólki samstarfið.