Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Pútín varar við áframhaldandi truflunum á gasflutningum

epa08748017 Valves of the Nord Stream 2 pipeline landfall facility during a visit of Mecklenburg-Western Pomerania State Premier Manuela Schwesig (not in the picture) to the industrial port and the landfall facility of the joint German-Russian pipeline project Nord Stream 2, in Lubmin, Germany, 15 October 2020. The politically controversial pipeline project was put into question in response to the alleged poisoning of Kreml critic Alexei Navalny. Schwesig wants to save the gas pipeline that she regards an important infrastructure project.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN
 Mynd: epa
Vladimír Pútín Rússlandsforseti varaði við því í gærkvöld að lítið jarðgas kunni að streyma um Nord Stream 1-gasleiðsluna á næstunni, hvort sem yfirstandandi viðgerðum og viðhaldsvinnu við leiðsluna lýkur á fimmtudag eins og áætlað er eða ekki. Pútin greindi frá þessu á fréttafundi í Íran, þar sem hann var í opinberri heimsókn, og sagði þetta orsakast af vandamálum með túrbínur.

Ein slík var til viðgerðar í Kanada en er á leið til Þýskalands og þaðan til Rússlands, þar sem hún á að fara aftur á sinn stað í leiðslunni.

Innan við helmingur af umsömdu magni fer um leiðsluna í dag

Mun minna gas hefur streymt frá Rússlandi til Vestur-Evrópu um Nord Stream-1 en um var samið og hefur rússneski gasrisinn Gazprom kennt viðhaldsþörf en þó einkum biluðu túrbínunni um.

Kanadamenn létu undan þrýstingi Þjóðverja og gerðu undantekningu frá viðskiptabanninu gagnvart Rússlandi þegar þeir sendu hina viðgerðu túrbínu austur um haf á dögunum. Þýsk stjórnvöld voru hæfilega bjartsýn á að það myndi breyta miklu, en vildu fækka afsökunum Rússa fyrir því að standa ekki við sitt.

Samningar kveða á um að Gazprom dæli 55 milljörðum rúmmetra af jarðgasi um Nord Stream-1 á ári hverju, um 150 milljónum rúmmetra á dag. Rússar segjast ekki hafa fengið túrbínuna enn og síðustu vikur hafa rúmmetrarnir aðeins verið 67 milljónir á dag.

Minnkandi trú á að Gazprom ætli að standa við gerða samninga

Pútín sagði í gærkvöld að gasstreymið muni minnka enn í lok þessa mánaðar, verði túrbínan ekki komin á sinn stað áður en taka þarf næstu túrbínu í gegn. Ómögulegt sé að kenna Gazprom um það, sagði forsetinn. Fyrirtækið hafi alltaf staðið við sitt, geri það nú og muni gera það í framtíðinni. Um leið minnti hann á að Nord Stream-2 leiðslan væri nánast tilbúin til notkunar og biði þess bara að verða tekin í notkun.

Það stendur hins vegar ekki til vegna viðskiptaþvingana Evrópusambandsins gagnvart Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Ummæli Pútíns auka enn áhyggjur Þjóðverja af því að Rússar hafi í raun engin áform uppi um að auka gasflæðið að nýju, heldur þvert á móti draga enn meira úr því.