Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lavrov vill herða sókn Rússlandshers utan Donbas

20.07.2022 - 18:14
Russian President Vladimir Putin (R) and Russian Foreign Minister Sergei Lavrov (L) attend the main session for the International Libya Conference in Berlin, Germany, 19 January 2020. By means of the 'Berlin Process', German government seeks to support the peace efforts of the United Nations (UN) to bring about an end to the conflict in Libya. Following the renewed outbreak of hostilities in April 2019, UN presented a plan to stop further military escalation and resume an intra-Libyan process of reconciliation.
 Mynd: SEAN GALLUP / POOL - EPA
Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands, lýsti því yfir við rússneska ríkissjónvarpsstöð í dag, að stefna Rússlandshers væri ekki lengur bundin við að ná yfirráðum á Donbas-svæðinu í Austur-Úkraínu.

Lavrov segir að vegna íhlutunar Vesturvelda og nýlegra vopnasendinga til Úkraínu, einkum í formi langdrægari stýriflauga, hefði stefna stjórnvalda og rússneska hersins tekið breytingum.

Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins, BBC, þar sem haft er eftir Lavrov að markmiðið sé að sækja fram á stærra landsvæði í suðausturhluta landsins og hrekja Úkraínuher til að hörfa frá víglínunni í vesturhluta Donbas.

Áætlunin hefur breyst segir Lavrov, og nefnir að nú verði herstyrknum beint að landsvæðinu suður af borginni Kherson og að svæðinu í kringum borgina Saporisjsjia í suðaustanverðu landinu, norður af hafnarborginni Maríopol.

Stjórnvöld í Úkraínu hafa til mótvægis við yfirlýsingar utanríkisráðherrans boðað herta sókn gegn Rússum. Úkraínumenn ætli að freista þess að vinna til baka landsvæði sem Rússar hafa náð á sitt vald á síðustu vikum.

Síðdegis bárust fregnir af því að Úkraínuher hefði sprengt brú nærri borginni Kherson sem er á valdi Rússa, til að torvelda herflutninga til og frá borginni. Það ætti að gera herdeildum Rússa erfiðara með að sinna birgðaflutningum til hermanna á vígstöðvunum.