Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bútasaumur í samgöngum

Áform og útfærsla innviðaráðherra á gjaldtöku í samgöngum eru eins og bútasaumur og heildaryfirsýn skortir. Þetta segir formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Hann vill hefja gjaldtöku á stofnbrautum út frá höfuðborgarsvæðinu sem fyrst.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur lagt fram áform um lagafrumvarp um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða.

Nú þegar liggja fyrir heimildir til að semja við einkaaðila um samvinnu við sex tilgreindar framkvæmdir og í samgönguáætlun er stefnt að gjaldtöku af umferð um jarðgöng á Íslandi sem fjármagna eigi rekstur og viðhald ganganna sem og hluta framkvæmdakostnaðar nýrra jarðganga.

Vilhjálmur Árnason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, er hlynntur stofnun slíks hlutafélags en gagnrýnir útfærslu gjaldtökunnar.

Vildu sjá heildstæðari lausn

„Við vildum sjá þetta sem heildstæðari lausn þannig að það sé farið í stofnbrautirnar út frá höfuðborgarsvæðinu og í framhaldinu í öllum göngum þannig átti að ná öflugri gjaldtöku þannig að gjaldi gæti almennt verið lægra sem þyrfti að taka því það væru fleiri sem myndu borga og okkar erlendu gestir myndu taka meiri þátt,“ segir Vilhjálmur.

Útfærsla innviðaráðherra bendi til þess að einstaka byggðarlög geti farið verr út úr gjaldtökunni en önnur.

Ertu þá að segja að það sé ekki gætt jafnræðis milli landshluta?

„Nei, ég get ekki séð það eins og útfærslan sé að þróast núna að það sé, ef það á til dæmis að rukka í öllum göngum þá eru Vestlendingar að fara að borga meginbrúsann fyrir allt landið,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að nú sé talað um gjaldtöku hér og þar fyrir einstaka framkvæmdir en ekki heildstætt kerfi. Vilhjálmur líkir þessu við bútasaum.

Þannig að þú vilt sjá heildstætt kerfi fyrir allt landið?

„Það er það sem ég vil sjá, heildstætt kerfi, sanngjarnt en ekki vera að taka ákvörðun um framkvæmd fyrir framkvæmd því þá höfum við ekki heildaryfirsýn yfir þetta.“

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV