Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hættuástand á vinnumarkaði

18.07.2022 - 23:31
Hættuástand er að skapast á vinnumarkaði þegar gríðarleg þörf er á vinnuafli og hingað streyma erlendir starfsmenn sem ekki þekkja réttindi sín. Þetta segir forseti ASÍ og telur að efla þurfi allt eftirlit, staðan sé óboðleg.

Of oft berast fréttir af því hér á landi að erlendu starfsfólki sé sýnt virðingarleysi og látið vinna myrkranna á milli fyrir lítil laun. Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins kallaði í fréttum um helgina eftir breyttu hugarfari og betri meðferð á erlendu starfsfólki, efla þyrfti allt eftirlit og verkalýðsfélögin yrðu að spyrna við.

„Við höfum líka upplýst það að það er ákveðið hættuástand þegar það er ofboðsleg þörf á fólki til að leggja hönd á plóg sérstaklega í ferðaþjónustunni og öðrum þjónustugreinum samhliða því að það er að koma mikið af fólki hingað inn í mjög viðkvæmri stöðu og þá erum við að tala um flóttafólk, hælisleitendur og svo framvegis,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Drífa segir að aðilarfélög ASÍ verði að efla allt vinnustaðaeftirlit og það sama megi segja um Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun til að koma í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði.

„Því þetta er að sjálfsögðu ekki boðlegt og kemur niður á okkur öllum vinnumarkaðnum í heild. En hvað er til ráða hér og nú ef það þarf að efla allt þetta eftirlit og styrkja verkalýðsfélögin? Það þarf hver og einn að skoða það það þarf hver og einn að efla sitt eftirlit og auka samráð.“

Verstu dæmin sé að finna í ferðaþjónustunni

Talað er um að verstu dæmin sé að finna í ferðaþjónustu en umsvif í ferðaþjónustu hafa náð fyrri styrk eftir kórónuveirufaraldurinn og eftirspurn eftir starfsfólki mikil.

Drífa segist halda að sterkasta vopnið í þessu sé að allir séu meðvitaðir um réttindi sín og skyldur. Bæði atvinnurekendur og starfsfólkið ekki síður, þar skipti miklu máli að koma upplýsingum til starfsfólks sem sé af erlendu baki brotið og komi hingað til að starfa.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV