Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Flugbrautir skemmast í hitanum í Bretlandi

18.07.2022 - 18:10
Erlent · Bretland · hitabylgja · Evrópa · Veður
epa10077488 Friends sit in a kiddies paddling pool after a council parks vehicle filled their pool with water at a park in central London, Britain, 18 July 2022. The Met Office has issued a red extreme heat warning as the UK could have its hottest day on record this week, with temperatures forecast to hit up to 41 Celsius.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE
Flugvellinum í Luton, norðan við Lundúnir, höfuðborg Bretlands, var lokað síðdegis vegna hitaskemmda á flugbraut vallarins. Einnig skemmdist flugbraut á herflugvelli. Hitamet féll í Wales í dag. Útlit er fyrir að hitabylgjan á Bretlandseyjum nái hámarki á morgun.

Stjórnendur Lutonflugvallar tilkynntu að öllu flugi hefði verið frestað eftir að skemmdir komu í ljós á einu flugbraut vallarins. Viðgerðarmenn voru samstundis sendir af stað. Meðan verið var að laga brautina var umferð beint til flugvalla í grenndinni, þar á meðal Biggin Hill.

Flugumferð var einnig stöðvuð á Brize Norton, stærsta herflugvelli Bretlands. Samkvæmt heimildum flughersins var flugbrautin byrjuð að bráðna.

Bretar voru hvattir til að vera sem minnst á ferðinni í dag. Útlit var fyrir að umferð bíla og lesta myndi raskast. Hægt var á lestum þar sem teinar kynnu að skekkjast í hitanum. Ferðum á nokkrum jarðlestaleiðum í Lundúnum var aflýst í dag vegna hita.

Síðdegis náði hitinn 38,1 stigi í Santon Downham í Suffolk. Í Wales féll hitamet frá 1990, Þegar 37,1 stigs hiti mældist í Hawarden í Flintshire. Breska veðurstofan gerir ráð fyrir enn meiri hita á morgun, jafnvel allt að 41 stigi.

Deilt á þingi í miðri hitabylgju

Meðan Bretar svitna í mestu hitabylgju sem geisað hefur í landinu gengur lífið sinn vanagang í þinghúsinu í Westminster. Þar hefur stjórnarandstöðunni tekist að knýja fram atkvæðagreiðslu um traustsyfirlýsingu við stjórn Borisar Johnsons, fráfarandi forsætisráðherra. Útlit er fyrir að atkvæði verði greidd seint í kvöld.

Þá lauk enn einni atkvæðagreiðslunni um næsta leiðtoga Íhaldsflokksins fyrir stundu. Greint verður frá því um sjöleytið hvert leiðtogaefnanna fimm heltist úr lestinni að þessu sinni.