Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tókust á um skattahækkanir og arfleið Borisar

Mynd: EPA / EPA
Frambjóðendur í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins tókust á í sjónvarpskappræðum í gærkvöldi. Tekist var á um skattamál og arfleið Borisar Johnsons fráfarandi forsætisráðherra. Athafnir og persónuleiki Johnsons og ítrekuð hneykslismál í embættistíð hans, koma kjósendum ekki sérstaklega á óvart. Boris var ólíkindatól áður en hann tók við embættinu, segir Andrés Magnússon blaðamaður.

Fimm þingmenn keppast nú um hylli 358 kollega sinna í neðri deild breska þingsins. Öll vilja þau verða arftaki Borisar sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins og næsti forsætisráðherra Breta. Í næstu viku fækkar frambjóðendum niður í tvo eða tvö og þá fá almennir flokksmenn um land allt loks aðkomu að kjörinu með póstkosningu. Niðurstaðan verður ljós þann 5. september næstkomandi.

Frambjóðendur tókust á um skatta og opinber útgjöld í sjónvarpskappræðum í gær. Hópurinn sem er eftir í þessum slag er nokkuð fjölbreyttur. Rishi Sunak fyrrum fjármálaráðherra, Liz Truss utanríkisráðherra, Tom Tugendhat  formaður utanríkismálanefndar, Penny Mordaunt viðskiptaráðherra og Kemi Badenoch fyrrum ráðherra sveitarstjórnar- og jafnréttismála.

Brestir Borisar þekkt stærð í hugum kjósenda

Svanhildur Hólm Valsdóttir framkvæmdastjóri, Baldur Þórhallsson prófessor og Andrés Magnússon blaðamaður, ræddu leiðtogakjörið og kappræðunar í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.

Andrés segir að kjósendur hafi vitað af brestum Borisar, kostum hans og göllum, áður en hann varð forsætisráðherra. Nýleg og ítrekuð hneykslismál hafi því ekki hreyft mikið við kjarnafylginu sem hafi haldið tryggð við ólíkindatólið frá síðustu þingkosningum og í gegnum súrt og sætt á kjörtímabilinu.

„Það uppnám sem varð í Westminster, það er að segja í höfuðborginni, í stjórnmálaþorpinu litla. Það uppnám endurspeglast ekki endilega út um landið. Það er eitt af því sem menn þurfa að taka tillit til. Breskir þingmenn ættu að muna þegar Theresa May var forsætisráðherra, þar sem þingið og þjóðin voru einhvern veginn algjörlega á skjön,“ segir Andrés.

epa10070093 British Foreign Secretary and Conservative Leadership candidate Liz Truss speaks at the launch event for her campaign to become the next leader of the Tory Party and Prime Minister, in London, Britain, 14 July 2022. There are six candidates remaining in the race.  EPA-EFE/TOLGA AKMEN
 Mynd: EPA
Liz Truss utanríkisráðherra

Alveg eins og Thatcher

Rishi Sunak, Liz Truss og Penny Mordant eru talin sterkust af þessum fimm. Athygli vakti að í kappræðunum var Truss klædd nánast alveg eins og Margaret Thatcher í sjónvarpsávarpi árið 1979. Truss hefur reyndar áður sýnt að hún er hrifin af Thatcher og í fyrra stillti hún sér upp í breskum skriðdreka, á sama hátt og Thatcher gerði þrjátíu og fimm árum áður.

Sunak sagði áhorfendum að hann hefði sagt af sér, meðal annars vegna þess að Johnson skorti heiðarleika. Liz Truss viðurkenndi að Boris hefði gert mistök en engu að síður fengið miklu áorkað. Tom Thugenthat hristi bara hausinn og uppskar lófatak að launum.

Andrés Magnússon segir að frambjóðendurnir hafi flestir átt í vandræðum með að heilla áhorfendur í kappræðum. Salurinn hafi verið ískaldur gagnvart öllum fimm.

„Þetta var töff salur fyrir þau, en það breytir ekki því að það var enginn þarna sem stóð uppúr. Það var helst að Tom Tugendhat gerði það, en hann er sá sem stendur lengst til vinstri í flokknum.“ Andrés bætir við að í þessum fimm manna hópi sé aðeins einn miðaldra hvítur karlmaður, það sé nokkuð fróðlegt.

epa07640605 British Secretary of State for Defence, Minister for Women and Equalities Penny Mordaunt departs 10 Downing Street following a cabinet meeting in London, Britain, 11 June 2019. Conservative Party leadership candidates are continuing to launch campaigns this week to become the country's next Prime Minister.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Penny Mordaunt viðskiptaráðherra

Persóna Borisar ekki úrslitaatriði

Baldur Þórhallsson telur að umræðan um persónu Johnsons ekki skipta eins miklu máli og af sé látið. Önnur málefni hreyfi frekar við kjósendum í Bretlandi á þessari stundu, meðal annars efnahagsmálin og verðlag vöru og þjónustu og ekki síst orkuverð sem rokið hafi upp.

„Varðandi það sem Andrés er að segja um Boris Johnson finnst mér athyglisvert, vegna þess að það er ný könnun sem birtist í morgun sem sýnir að þeir kjósendur sem eru að yfirgefa Íhaldsflokkinn, eru að gera það vegna hærra orkuverðs og hærra vöruverðs í verslunum, ekki vegna Boris sjálfs“ segir Baldur.

epa08842062 A handout photo made available by the UK Parliament shows Britain's Chancellor of the Exchequer Rishi Sunak as he delivers his autumn spending review in the House of Commons Chamber in London, Britain, 04 November 2020.  EPA-EFE/JESSICA TAYLOR / UK PARLIAMENT HANDOUT  MANDATORY CREDIT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA
Rishi Sunak fyrrverandi fjármálaráðherra

Efnahagsmálin mest aðkallandi

Eitt stærsta verkefni nýs forsætisráðherra verður að ná tökum á efnahagsmálunum. Um það snýst þessi slagur að miklu leyti, hvort lækka eigi skatta, fara í auknar lántökur eða herða ólina og berjast gegn verðbólgu, sem er það sem Sunak sagðist vilja gera. Liz Truss skaut til baka á Sunak og sagði að verðbólgan væri afleiðing af efnahagsstefnunni.

Svanhildur Hólm telur einnig að efnahags- og skattamál geti orðið að bitbeini í baráttunni á milli þeirra sem eftir standa. 

„Þessi orðastaður sem átti sér stað á milli Liz Truss og Rishi Sunak í gær, hann er kunnuglegur í mínum eyrum. Þarna talar mikill fjármálaráðherra og það stundum þannig þegar fjármálaráðherrar tala, þá eru þeir ekki endilega fáanlegir til þess að fara í pólitísku skotgrafirnar eða stökkva á einföldu lausnirnar. Og mér fannst góð lína sem hann kom með þegar Truss var að lýsa þessum efnahagsáformum sínum, að þú skuldsetur þig ekki út úr verðbólguskeiði,“ segir Svanhildur. 

epa10002297 A handout photograph released by the UK Parliament shows British Prime Minister Boris Johnson (C) react during the Prime Minister's Questions (PMQs) at the House of Commons in London, Britain, 08 June 2022.  EPA-EFE/UK PARLIAMENT/JESSICA TAYLOR HANDOUT -- MANDATORY CREDIT: UK PARLIAMENT/JESSICA TAYLOR -- HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA
Boris Johnson fráfarandi leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra

Boris nýtur vinsælda

Andrés Magnússon segir að ekki megi gleyma að Boris Johnson njóti enn töluverðra vinsælda, sem gæti haft áhrif á framhald leiðtogakjörsins. 

„Þetta er skrítin kosning að því leyti til að þetta er útsláttarkeppni. Núna er hún hjá þingflokknum og þeir munu halda áfram að kjósa út fólk, þangað til tveir standa eftir. Þá fær hinn almenni flokksmaður tækifæri til að segja sína skoðun. Það er gert með póstkosningu sem stendur fram í september. En gleymum því ekki að afstaðan í þinginu og hjá hinum almenna flokksmanni, hún getur verið gjörólík. Hjá flokksmönnum nýtur Boris enn verulegra vinsælda. Margir þeirra telja að þingmenn hafi svikið hann,“ segir Andrés.

Í spilaranum hér að ofan má hlusta á samtal Sigríðar Daggar Auðunsdóttur við Svanhildi, Baldur og Andrés í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.

Hér að neðan má horfa á útdrátt úr kappræðunum á Channel 4 í gærkvöldi.