Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar frestast fram í ágúst

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka verður ekki tilbúin fyrr en í fyrri hluta ágústmánuðar. Upphaflega átti skýrslugerðin að klárast í júní en henni hafði síðan verið frestað fram í lok júlí.

Þetta kemur fram í svari Guðmundar Björgvins Helgasonar ríkisendurskoðanda við fyrirspurn Kjarnans um málið.

Í lok júní sagði Guðmundur við fréttastofu að verkefnið væri umfangsmikið og að gagnaöflun hefði gengið hægar en björtustu vonir hefðu staðið til um.

Stjórnarandstaðan krafðist þess að sett yrði á fót rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til þess að fara yfir söluna, en ríkisstjórnin vildi bíða eftir niðurstöðu ríkisendurskoðunar á málinu, sem eins og áður segir átti upphaflega að vera tilbúin í júní.

Alþingi verður kallað saman til framhaldsfundar þegar skýrslan er tilbúin.