Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Alls 30 skjálftar í jarðskjálftahrinu í morgun

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Alls voru um þrjátíu jarðskjálftar í skjálftahrinu í morgun norðaustur af Reykjanestá. Hrinan byrjaði rétt fyrir klukkan átta í morgun. Tveir skjálftar í hrinunni mældust yfir þrír að stærð og fannst annar þeirra í byggð.

Jarðskjálfti sem var 3,3 að stærð varð rúma sex kílómetra norðaustur af Reykjanestá þegar klukkan var rúman stundarfjórðung gengin í níu í morgun.

Rétt fyrir klukkan hálf níu varð annar skjálfti, öllu stærri, sem mældist 3,4. Sá fannst í Reykjanesbæ.

„Við myndum nú bara kalla þetta smáhrinu,“ segir Kristín Elísa Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Hún bætir við að þessi hrina sé ekkert nýtt en að sjálfsögðu sé vel fylgst með öllum breytingum á svæðinu.