Segir íslenskan málstaðal úreltan

Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson/RÚV / RÚV

Segir íslenskan málstaðal úreltan

11.07.2022 - 10:49

Höfundar

„Það hefur tekist að innræta fólki þessa hugmynd að það sé til eitt rétt mál, einhver ein rétt íslenska. Það hefur ekki endilega tekist að kenna því að tala þessa íslensku. Og þá er spurning, hver er tilgangurinn með því að hafa einhvern málstaðal sem er fjarri málkennd almennings,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson. Anna og Guðrún töluðu við hann í Orði af orði á Rás 1.

Í bókinni Alls konar íslenska, sem kom út nýverið, fjallar Eiríkur Rögnvaldsson um margvíslegar hliðar íslensku svo sem stöðu hennar, málvenjur, kynjamál, tilbrigði í málinu og íslenska málrækt.

Eiríkur, sem er prófessor emeritus í íslensku við Háskóla Íslands en kallar sig nú málfræðilegan aðgerðasinna, hefur á undanförnum árum kvatt sér hljóðs og boðað nýja sýn á íslenska málrækt. Sú sýn er ekki óumdeild. Oft hafa kviknað heitar umræður í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um þá stefnu sem hann hefur markað sér enda kveður þar við nýjan tón. Eiríkur boðar umburðarlyndi og sveigjanleika. Margt fólk hefur tekið undir með honum en öðrum þykir hann ganga of langt í frjálsræðisátt.

Í Alls konar íslensku fjallar Eiríkur líka talsvert um málstaðal. Það er hugtak sem oft heyrist í umræðu um málrækt og málbreytingar. Aðspurður segir Eiríkur að hugtakið sé notað um þau viðmið sem fólk hefur um hvað er rétt mál og vandað en að einn vandinn við þennan málstaðal sé að hann sé hvergi skráður í heild.

Hlutirnir þurfi ekki að vera réttir eða rangir

„Mér finnst sjálfsagt að það sé til einhver málstaðall en ég tel annars vegar að íslenskur málstaðall sé úreltur, að það þurfi að breyta honum á ýmsan hátt, og það þurfi líka að beita honum af miklu meiri sveigjanleika heldur en hefur verið gert. Það er ekkert að því að það sé val í mörgum tilvikum. Við erum svo vön að hugsa þannig að ef eitthvað er rétt hljóti annað að vera rangt. Það er ekkert alltaf þannig og þarf ekkert að vera þannig. Mér finnst sjálfsagt til dæmis þegar verið er að kenna íslensku sem annað mál, þá verður að velja eitthvað eitt sem er kennt, en jafnframt er sjálfsagt að benda á að það séu oft til önnur tilbrigði, og vekja athygli á þeim. Þegar nemendurnir eru komnir lengra geta þeir svo tekið afstöðu til þess hvaða tilbrigði þeir vilja nota,“ segir Eiríkur.

Anna Sigríður Þráinsdóttir og Guðrún Línberg Guðjónsdóttir töluðu við Eirík Rögnvaldsson málfræðing í Orði af orði á Rás 1 sunnudaginn 12. júní, um málstaðal og mikilvægi þess að ungt fólk hafi jákvætt viðhorf til íslenskrar tungu, svo fátt eitt sé nefnt.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Fólk verður harðmælt á því að aka yfir Öxnadalsheiði

Menningarefni

Fokk ofarlega á lista yfir algengustu orðin

Íslenskt mál

Stytting náms hefur áhrif á viðhorf til íslensku