Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Samþykktu deiliskipulag Arnarnesvegar um Vatnsendahvarf

Deiliskipulag Arnarnesvegar - 3. áfangi. Frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut.
 Mynd: Aðsent
Borgarráð samþykkti deiliskipulag þriðja áfanga Arnarnesvegar um Vatnsendahvarf á fundi sínum í síðustu viku. Deiliskipulagið nær til hluta Arnarnesvegar frá mótum hans og Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar.

Leggja á samfelldan stofnveg með tveimur akreinum í hvora átt á milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Einnig á að reisa fjögurra akreina brú yfir Breiðholtsbraut. Hjólastígur á að vera frá Rjúpnavegi í Kópavogi og inn í Elliðaárdal. Samkvæmt deiliskipulaginu á vegur að liggja um Vatnsendahvarf. Þar er varplendi margra farfuglategunda og einnig er það vinsælt útivistarsvæði. 

Deiliskipulagið hefur þótt umdeilt en það er tæplega 20 ára gamalt. Sósíalistaflokkurinn gagnrýnir það og segir að gera ætti nýtt deiliskipulag enda hafi forsendur breyst. Flokkur fólksins er einnig á móti deiliskipulaginu þar sem í Vatnsendahvarfi sé dýrmætt grænt svæði sem sé varplendi margra farfuglategunda. Einnig sé svæðið vinsælt útivistarsvæði. 

Á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs í desember 2020 bentu fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata á að farsælast væri að framkvæma nýtt umhverfismat. Á þessum tveimur árum hafi ekki verið vilji til að leggja í slíka vinnu sem hefði að öllum líkindum skilað betri ákvarðanatöku en þeirri sem er tekin er núna. 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar lögðu fram bókun um málið sem var samþykkt. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalista sátu hjá. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 
 

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV