Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Biden undirritar tilskipun um þungunarrof

epa10059802 US President Joe Biden delivers remarks before signing an Executive Order on Protecting Access to Reproductive Health Services in the Roosevelt Room of the White House in Washington, DC, USA, on 08 July 2022, as US Vice President Kamala Harris (L), US Secretary of Health and Human Services Xavier Becerra (2-R) and US Deputy Attorney General Lisa Monaco (R) look on.  EPA-EFE/Yuri Gripas / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ABACAPRESS.COM POOL
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur undirritað forsetatilskipun sem ætlað er að vernda réttinn til þungunarrofs og aðgengis að getnaðarvörnum. Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð sem tryggði réttinn til þungunarrofs á landsvísu í síðasta mánuði.

Nokkur fjöldi ríkja hefur þegar samþykkt lög sem annað hvort banna þungunarrof eða sett afar strangar takmarkanir. Samflokksmenn Bidens í Demókrataflokknum hafa krafið hann um aðgerðir til að vega upp á móti úrskurði hæstaréttar.

Biden hefur sagt möguleika forsetaembættisins takmarkaða. Þingið þurfi að taka á málinu. Það gæti reynst strembið í ljósi þess að þingstyrkur Demókrata í öldungadeildinni er ekki nógu mikill.

Reglugerðin sem Biden undirritaði í dag þykir ekki ganga sérstaklega langt. Þar er kveðið á um persónuvernd sjúklinga, þar á meðal með því að takmarka eða banna sölu á viðkvæmum heilbrigðisupplýsingum. 

Með reglugerðinni á einnig að auka vernd þeirra sem bjóða upp á þungunarrof í færanlegum einingum nærri landamærum þeirra ríkja Bandaríkjanna sem hafa bannað þungunarrof eða sett því mjög strangar takmarkanir. Þá snýst reglugerðin einnig um vernd þeirra sem gætu sætt refsingum vegna þungunarrofs.

Þórgnýr Einar Albertsson