Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Danska konungsfjölskyldan slítur tengsl við skóbúð

epaselect epa09573707 Queen Margrethe II of Denmark walks into Bellevue Palace for a meeting with German President Steinmeier (unseen) in Berlin, Germany, 10 November 2021. The Danish monarch and crown prince are on a visit to Germany.  EPA-EFE/FILIP SINGER
 Mynd: EPA - RÚV
Danski skóframleiðandinn Ecco getur frá og með næsta ári ekki skreytt sig með dönsku krúnunni. Í tilkynningu frá dönsku hirðinni kemur fram að verslunin verði svipt nafnbótinni „konunglegur birgir“ (d. kongelig hofleverandør) sem hún hefur notið um árabil.

Ríflega eitt hundrað dönsk fyrirtæki og fimm erlend njóta þessarar nafnbótar, þar á meðal Carlsberg, Bang&Olufsen og Georg Jensen. Hún þykir mikil upphafning og gefur fyrirtækjunum leyfi til að skreyta sig með danskri kórónu í auglýsingum, á umbúðum og í verslunum sínum.

Þótt þess sé ekki getið í tilkynningu hirðarinnar velkist enginn í vafa um að ástæða þess að Ecco hefur fallið úr náðinni hjá kóngafjölskyldunni eru viðskipti fyrirtækisins í Rússlandi. Ólíkt flestum dönskum og öðrum vestrænum fyrirtækjum hefur Ecco ekki dregið saman seglin þar í landi eftir innrásina í Úkraínu.

Allar 200 verslanir Ecco í Rússlandi eru enn opnar. Fyrirtækið hafði á síðustu árum fjárfest mjög á rússneskum markaði og var ekki tilbúið að fórna þeim þrátt fyrir stríð.

Ákvörðun Ecco hefur mætt harðri gagnrýni í heimalandinu og orðið til þess að stórverslanir á borð við íþróttavöruverslunina Sport 24 hafa tekið vörur Ecco úr sölu.

Mikil tengsl

Jacob Heinel Jensen, hirðfréttaritari danska blaðsins BT, segir að vegna gagnrýninnar hafi danska konungsfjölskyldan neyðst til að slíta á tengslin við Ecco. Það fari ekki saman að gagnrýna stríðsrekstur Rússa og veita þessu fyrirtæki virðingarvott.

Eigendur Ecco tengjast konungsfjölskyldunni þó sterkum böndum. Fyrirtækið var meðal þeirra sem fjármögnuðu endurbætur Schackenborg-höllinni á Suður-Jótlandi árið 2014 og eru í eigendahópi Schackenborg-sjóðsins, sem hana rekur. Höllin er ein af heimilum Jóakims prins, bróður Friðriks krónprins. 

Þá bendir Jensen á að samgangur sé á milli kóngafjölskyldunnar og fjölskyldunnar á bak við Ecco.

Hefur áhrif á markaðsstarf

Talið er víst að ákvörðunin hafi neikvæð áhrif á markaðsstarf Ecco. Carsten Herholdt, eigandi markaðsstofunnar Brand Agency, segir í samtali við danska ríkisútvarpið að áhrifa þess muni gæta, ekki aðeins á Norðurlöndum heldur einnig í Asíu. Þar hafi norræn fyrirtæki lagt mikið upp úr heimaslóðum sínum og það gefist vel að geta sveipað sig konunglegum skrúða.

„Hins vegar er ekki öruggt að þetta hafi áhrif á sölutölur Ecco. Fyrirtækið er risastórt og rekur yfir 2.000 verslanir í heiminum,“ segir Herholdt. Fyrirtækið sé það þekkt, að hugsanlega haldi fólk áfram að hugsa um Ecco þegar það vantar skó, án þess að ætla sér það.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV