Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Næstum allt laust í haust

Mynd: RÚV / RÚV
Yfir 300 kjarasamningar meirihluta launþega á íslenskum vinnumarkaði renna út á næstu mánuðum. Stærstu stéttarfélögin hafa kynnt Samtökum atvinnulífsins kröfugerðir sínar. Forseti ASÍ segir svigrúm til launahækkana en óvissa sé mikil. 

Samkvæmt yfirliti ríkissáttasemjara er 361 kjarasamningur í gildi hér á landi. 157 þeirra renna út á næstu sex mánuðum. Flestir í lok október eða byrjun nóvember. Þeirra á meðal er Lífskjarasamningurinn sem nær til yfir 100.000 launþega í stærstu stéttarfélögum landsins.

Þessu til viðbótar eru tíu mál á borði ríkissáttasemjara. Meðal þeirra eru kjarasamningar flugmanna hjá Bluebird, samningar Sjómannasambandsins og Félags skipstjórnarmanna og samningar flugfreyja og -þjóna hjá Play.

Ef lengra tímabil er skoðað, þá renna alls 309 kjarasamningar út næstu níu mánuði, margir í mars á næsta ári. Meðal þeirra eru samningar allra aðildarfélaga Kennarasambands Íslands, auk kjarasamnings BSRB við sveitarfélögin og fjölda samninga ýmissa félaga háskólamenntaðra við ríki og sveitarfélög. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við fréttastofu að stærstu stéttarfélögin sem SA semur við hafi kynnt samtökunum kröfugerðir sínar og óformlegar þreifingar séu hafnar við formenn margra stéttarfélaga. Beðið sé eftir heildarmyndinni en formlegar viðræður hefjist ekki fyrr en eftir miðjan ágúst. 

Starfsgreinasambandið er eina aðildarfélag Alþýðusambands Íslands sem hefur skilað kröfugerð sinni til SA. „Aðrar kröfugerðir og uppfærðar verða væntanlega sendar inn í haust. En ég held að stefið núna í kjaraviðræðum og kjarasamningum sé óvissa,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ. „Við vitum ekki hver staðan verður í haust, hvernig verðbólgan verður, hvað kemur út í stýrihóp um húsnæðismál og húsnæðisstuðning og svo framvegis.“

Drífa segir að óvissa hafi ekki verið meiri í aðdraganda kjarasamninga síðan skömmu eftir hrun. „Þá var verðbólga í hæstu hæðum og þá var mikið óvissuástand út af efnahagshruninu.“

Of snemmt sé að segja til um hvort Lífskjarasamningurinn verði endurnýjaður; það sé stéttarfélaganna að ákveða það. „Hvort það verður gengið til skemmri samninga út af óvissuástandinu eða hvort það verður gerð tilraun til að gera langtímasamninga með einhverjum fyrirvörum.“

Og Drífa telur að talsvert svigrúm sé til kjarabóta. „Flestar atvinnugreinar eru í þannig stöðu að launahlutfall þeirra hefur lækkað undanfarin ár þannig að þau eru ekki að eyða jafnmiklu í laun eins og áður.“