Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hörð átök hollenskra bænda og lögreglu

Protesting farmers sit atop their vehicles at a blockade outside a distribution center for supermarket chain Aldi in the town of Drachten, northern Netherlands, Monday, July 4, 2022. Dutch farmers angry at government plans to slash emissions used tractors and trucks Monday to blockade supermarket distribution centers, the latest actions in a summer of discontent in the country's lucrative agricultural sector. (AP Photo/Peter Dejong)
 Mynd: AP
Hollenskir bændur hafa staðið fyrir hörðum mótmælaaðgerðum víðs vegar í Hollandi síðustu daga vegna hertrar löggjafar um köfnunarefnisnotkun í landbúnaði. Í gærkvöld sló í brýnu milli þeirra og lögreglu, sem greip til skotvopna til að skakka leikinn. Samkvæmt boðaðri löggjöf þurfa bændur að minnka notkun köfnunarefnisáburðar um allt að 70 prósent á næstu misserum, mest í nágrenni við náttúruverndarsvæði.

Endalok landbúnaðar á stórum svæðum?

Þetta er liður aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum og umtalsvert meiri skerðing en að var stefnt í fyrri áætlunum. Bændur segja lögin jafngilda dauðadómi yfir landbúnaði á stórum svæðum í landinu.

Síðustu daga hafa þeir fylkt liði á dráttarvélum og fleiri landbúnaðartækjum og lokað öllum leiðum að birgða- og dreifingarstöðvum margra stærstu stórmarkaðakeðja landsins, með þeim afleiðingum að skortur hefur verið á landbúnaðarvörum í verslunum þeirra.

Einnig hafa þeir kastað heyböggum og -rúllum á þjóðvegi og kveikt í þeim og truflað umferð með ýmsum hætti vítt og breitt um landið.

Lögregla skaut á bændur í gær

Í gærkvöld sló í brýnu milli lögreglu og bænda sem mótmæltu í bænum Heerenveen. Lögregla fullyrðir að einhverjir úr hópi bænda hafi reynt að aka dráttarvélum sínum á bæði lögreglumenn og -bíla og lögreglan þvi ekki átt annars úrkosti en að skjóta viðvörunarskotum.

Í hollenskum fjölmiðlum segir að lögregla hafi þó einnig skotið markvissum skotum að mótmælendum og að sjá megi kúlnagat á minnst einni dráttarvél. Enginn særðist í átökunum í Heerenveen en þrír voru handteknir.

Sumir hóta sjálfstæðisyfirlýsingu en aðrir bjóða lífrænar lausnir

Bændur í norður-hollenska héraðinu Texel, þar sem allar jarðir eru í næsta nágrenni við stórt náttúruverndarsvæði, hafa boðað til mikillar samkomu á föstudag þar sem þeir hyggjast segja sig úr lögum við Holland og lýsa yfir sjálfstæði.

Samtök bænda í lífrænum landbúnaði ætla hins vegar að afhenda landbúnaðarráðherra tíu punkta áætlun um hvernig snúa megi vörn í sókn og tryggja afkomu allra bænda án tilbúins köfnunarefnisáburðar. Til þess þurfi hins vegar aukinn styrk frá ríkisvaldinu, til að aðstoða þá sem treyst hafi á tilbúna áburðinn við að taka upp nýja og umhverfisvænni siði.

Kallað hefur verið eftir sérstökum umræðum í hollenska þinginu í dag vegna mótmælanna, þar sem forsætisráðherrann Mark Rutte og dóms- og öryggismálaráðherrann Dilan Yeşilgöz-Zegerius verða krafðir svara.