Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hátt verðlag ástæða dvalar lífeyrisþega erlendis

Mynd: RÚV / RÚV
Greiðslur Tryggingarstofnunar inn á reikninga Íslendinga sem búsettir eru erlendis, eða verja stórum hluta ársins í útlöndum, hafa aukist á liðnum árum. Milli áranna 2020 og 2021 hækkuðu slíkar greiðslur um tæp 19%. Árið 2017 voru þær um 360 milljónir króna en í fyrra tæpar 920 milljónir. En hvað veldur?

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og fyrsti varaforseti ASÍ, segir að margt fólk sem hafi lokið starfsferli sínum og sé hætt að vinna sökum aldurs, velji að búa erlendis einkum á Spáni.  

Gott veður og hagstæðara verðlag

Þau sæki í gott veðurfar og verðlag sem í mörgum tilfellum sé mun hagstæðara en hérlendis.

Í tölum Tryggingastofnunar komi þó ekki fram hvort um sé að ræða Íslendinga sem ferðast á milli landa og séu búsettir á Íslandi, eða hvort um sé að ræða starfsfólk af erlendum uppruna sem hafi komið hingað til lands á síðustu árum til að vinna, en hafi síðan flutt aftur heim. 

„Og það gæti alveg verið í takt við þá þróun sem hefur verið í gangi á undanförum árum. Að erlent starfsfólk kemur meira til Íslands og vinnur þau störf sem eru laus, sem er auðvitað mjög gott fyrir íslenskt samfélag. En þetta fólk leitar þá kannski aftur út þegar starfsævinni lýkur,“ segir Kristján Þórður.

Nauðsyn svo endar nái saman

Aðspurður hvort að ákveðin nauðsyn geti verið ástæða flutninganna, hvort þetta sé fólk sem ekki nái endum saman hérlendis og neyðist til að flytja úr landi, segir Kristján:

„Maður heyrir auðvitað margar sögur þar sem fólk mögulega neyðist til þess að komast í hagstæðara umhverfi. Við vitum það að fólk sem er á efri árum og er komið á lífeyri, að það er ekkert endilega mjög mikið sem fólk hefur á milli handanna. Þrýstingurinn er að leita í eitthvað sem er hagstæðara, ódýrara.

En á sama tíma er það þannig að fólk er ekkert endilega búið að losa sig við húsnæði hér heima, þannig að það hefur áfram skuldbindingar hér heima, til viðbótar.“

Kristján segir að þeir sem flytja alfarið til útlanda sé sá hópur sem er að leitast við að komast í hagstæðara umhverfi og losna undan skuldbindingum hérlendis og komast í mun hagstæðari rekstur á heimilinu ytra. 

Tryggja þurfi lífeyri í samræmi við hækkanir

Rýna þurfi kerfið í heild og gera breytingar svo fólk í þeim samfélagshópum sem hafi minnstar tekjur og lifi eingöngu á lífeyrisgreiðslum, öryrkjar og ellilífeyrisþegar, geti staðið undir mánaðarlegum greiðslum. 
   
„Ef við horfum á þróun örorkulífeyris eða ellilífeyris, þá hefur hún ekki verið að fylgja því sem hefur verið að gerast hér á landi. Þegar hækkanir hafa verið ákveðnar þá hafa þær ekki tekið mið af breytingum á kjarasamningum endilega. Þetta er yfirleitt bundið við verðbólgu, eða verðlagsbreytingar sem kemur þá sterkara inn núna,“ segir Kristján Þórður. 

Hann segist vilja sjá meiri skilning hjá þeim sem ráða hjá hinu opinbera og að þessum hópum verði tryggðar nægar hækkanir til að standa straum af þessum auknu útgjöldum sem verðlagsþróun liðinna mánaða ber með sér. Í komandi kjarasamningum verði nauðsynlegt að tryggja að lífskjörin skerðist ekki.

Í spilaranum hér að ofan er hægt að hlusta á viðtal við Kristján í Morgunútvarpinu í morgun.