Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Enn geisa hamfaraflóð á austurströnd Ástralíu

06.07.2022 - 04:31
epa10052781 Floodwaters flow through Yarramalong cutting off the town on the Central Coast, north of Sydney, New South Wales, Australia, 05 July 2022. New South Wales residents are bracing for more heavy rain and flooding as dangerous downpours continue throughout the day.  EPA-EFE/JEREMY PIPER AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Þúsundir hafa neyðst til að flýja heimili sín á austurströnd Ástralíu, þar sem hamfaraflóð í kjölfar ofsarigninga geisa fjórða sinni á átján mánaða tímabili. Vatnsveðrið fikrar sig nú norður með austurströndinni eftir að hafa valdið miklum flóðum í milljónaborginni Sydney og nærsveitum síðustu daga.

Miklir vatnavextir eru enn í ám norður af borginni og yfirvöld vara við yfirvofandi flóðum þar þrátt fyrir að heldur sé tekið að draga úr úrkomu í Sydney. „Þessi atburður er langt í frá að baki,“ sagði ríkisstjórinn Dominic Perrottet á fréttafundi.

85.000 þurftu að flýja eða búa sig undir flótta að heiman

Almannavarnir og lögregluyfirvöld hafa fyrirskipað rýmingar á rúmlega 100 stöðum frá því að flóðin dundu yfir um næstliðna helgi og alls hafa um 85.000 manns fengið fyrirmæli um að yfirgefa heimili sín þegar í stað eða búa sig undir að þurfa að flýja fyrirvaralaust til að tryggja að þau lokist ekki af vegna flóða.

Fjöldi áa og fljóta flæddi yfir bakka sína vestur af Sydney, segir í frétt AFP, þar sem stór landsvæði hafa nú breyst í gruggug stöðuvötn sem fært hafa byggingar, brýr og vegi á kaf.

Langþreytt eftir tíðar og miklar hamfarir

Anthony Albanese forsætisráðherra Ástralíu heimsótti flóðasvæðin í morgun. Hann hét því að leita „langtímalausna“ fyrir íbúa flóðasvæðanna á austurströndinni, sem eru orðnir langþreyttir eftir fjögur hamfaraflóð á hálfu öðru ári, auk einhverra skæðustu skógar- og gróðurelda sem þar hafa geisað frá því að Evrópubúar námu þar land.

Ríkisstjórnin hefur lýst yfir neyðarástandi á 23 flóðasvæðum í Nýja Suður-Wales, til að greiða fyrir streymi fjármagns og hjálpargagna þangað sem þörfin er mest. Yfir 20 manns fórust í flóðum á þessum sömu slóðum í mars síðastliðnum.

Óverjandi að tryggja hús á hamfarasvæðinu

AFP-fréttastofan hefur eftir Andrew Hall, forstjóra samtaka ástralskra tryggingafyrirtækja, að tryggingageirinn muni að líkindum skilgreina flóðin í Sydney síðustu daga sem „hamfarir“. Hann sagði að 2.700 tjónatilkynningar hefðu borist frá Sydney einni og sér fyrir dagslok á þriðjudag og líklegt að mun fleiri eigi eftir að berast þegar fólk sem neyddist til að forða sér snýr aftur heim.

Tryggingafyrirtæki landsins hafa þegar greitt fimm milljarða Ástralíudala vegna hamfaratjóna það sem af er þessu ári, jafnvirði ríflega 450 milljarða íslenskra króna. Hall segir það „óverjandi“ að halda áfram að tryggja heimili sem hafa lent fjórum sinnum í flóðum á hálfu öðru ári. „Við verðum að staldra við og spyrja okkur, „Höfum við verið að byggja heimili á röngum stöðum?““