
Smábátasjómenn flytja lögheimili til að geta veitt
Kvótinn að klárast
Frá 2018 hefur strandveiðum verið skipt niður á fjögur veiðihólf. Strandveiðitímabilið er frá maí og fram í ágúst eða þar til kvótinn er búinn. Aflaheimildir eru sameiginlegar en misgóð veiði er eftir landshlutum í hverjum mánuði.
Guðmundur Baldursson, smábátasjómaður á Kópaskeri, segist uggandi yfir að kvótinn sé langt kominn áður en strandveiðisjómenn á svæði C sem er á Norðausturlandi fara að sjá almennilegan fisk.
„Fiskurinn er ekkert byrjaður að ganga hérna á grunnslóð hjá okkur, við treystum voðalega mikið á júlí og ágúst. Hjá flestöllum er mjög lítil veiði og lélegur fiskur í mái og júní en þetta byrjar svona að glæðast upp úr mánaðamótunum núna en þá er potturinn að klárast,“ segir Guðmundur.
Veiðisvæði A og B nýta meirihluta kvótans
Ekki er leyfilegt að fara á milli svæða en góð veiði hefur verið á svæði A og B, sem er frá Faxaflóa að Norðausturlandi.
„Við erum hérna enn þá að reyna að eltast við smáfisk á meðan þeir eru í stórum fisk fyrir sunnan. Þannig að þeir eru mjög sáttir þar, og vilja ekkert breyta þessu,“ segir Guðmundur.
Fleiri íhuga að flytja lögheimili sitt
Guðmundi sýnist að kvótinn verði uppurinn á veiðisvæði C um miðjan júlí en best fiskast þar í ágúst.
„Ég er búinn að heyra af mörgum og ég er jafnvel einn af þeim sem ætla bara eins og margir forverar hafa gert núna. Þeir hafa bara flutt lögheimili sitt á Breiðafjörðinn eða einhvers staðar þar og róa bara þaðan í staðinn. Þá bara reynir maður að fá inni hjá vinum og kunningjum eða að sofa í bátnum.“