Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

SAS óskar eftir greiðsluskjóli í Bandaríkjunum

05.07.2022 - 08:16
epa10051568 Scandinavian Airlines (SAS) aircrafts on the tarmac at Oslo Gardermoen Airport in Gardermoen, Norway, 04 July 2022. Some 900 SAS pilots in Sweden, Denmark and Norway called for a strike as the company and the pilots’ union failed to reach an agreement within the 04 July deadline. Pilots, already dissatisfied with working conditions, claim the company refuses to reinstate staff fired during the pandemic, and instead employs new pilots with cheaper agreements. The strike could affect up to 30,000 passengers per day.  EPA-EFE/BEATE OMA DAHLE  NORWAY OUT
 Mynd: EPA
Flugfélagið SAS og dótturfélög þess hafa farið fram á greiðsluskjól í Bandaríkjunum. Félagið hefur tilkynnt stöðuna til kauphallarinnar í Ósló þar sem félagið er skráð á markað. Aðgerðin kemur í kjölfar verkfalls flugmanna félagsins sem hófst í gær.

Í tilkynningu flugfélagsins til Oslo Børs, kemur fram að þetta sé gert til þess að forðast efnahagslegar afleiðingar sem verkfall flugmanna kann að hafa, verkfallið geri stöðu félagsins erfiðari en ella. Félagið hyggst þó áfram þjóna viðskiptavinum sínum í gegnum ferlið.

Þetta kom fram á fréttamannafundi stjórnenda félagsins í Solna í Svíþjóð í morgun. NRK greinir frá. 

Að sögn forsvarsmanna félagsins er aðgerðin afleiðing af verkfalli flugmanna sem hófst í gær og ekki sér fyrir endann á. Verkfallið er þó ekki eina ástæða rekstrarvandræða félagsins og fleiri þættir koma til. 

Leita svigrúms til að byggja upp félagið

Beiðni um greiðsluskjól hefur verið á teikniborðinu um nokkurn tíma, en það veitir félaginu svigrúm til fjárhagslegrar endurskipulagningar við erfiðar aðstæður, undir yfirskriftinni SAS Forward.

Beiðnin er lögð fram hjá dómstóli í New York, sem mun hafa eftirlit með ferlinu undir 11. grein bandarískra gjaldþrotalaga. Ákvæðið gerir það að verkum að lánveitendur geta ekki farið fram á gjaldþrotaskipti flugfélagsins.

Að sögn Carstens Dilling stjórnarformanns SAS, getur verkfall flugmanna félagsins sem hófst í gær, haft enn alvarlegri afleiðingar fyrir efnahag félagsins og því hafi stjórnin talið þetta rétt skref. Hann ítrekar þó að verkfallið sé ekki eina ástæða beiðninnar.

Síðustu tvö ár hafa verið þau erfiðustu fyrir rekstur flugfélaga um allan heim og framtíðin áfram óljós, segir Carsten Dilling.