Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Pólland í skugga stríðs

05.07.2022 - 09:36
Mynd með færslu
 Mynd: Valur Gunnarsson
Stríðið er enn langt undan þegar komið er til Varsjár í Póllandi. Vissulega sést úkraínski fáninn hér og hvar, sem og hvatningarorð á veggspjöldum. Í bókunarkerfi Uber er boðið upp á að borga aukalega og fer mismunurinn til stuðnings Úkraínu, og á lestarstöðvum eru upplýsingar um hvert flóttamenn skuli leita.

Valur Gunnarsson, rithöfundur og sagnfræðingur, skrifar frá Póllandi. Þetta er fyrsta greinin í greinaflokki um för Vals til Úkraínu þar sem hann fjallar um stríðið, mannlíf og sögu landsins.

Að nógu öðru er að huga hér í borg, sumarið er komið og til að fagna því eru  haldnir tónleikar í Łazienki-garði, einum helsta skrúðgarði Evrópu, sem hannaður var á tímum Stanislaws Poniatowskis, síðasta konungs Póllands. Á svið stíga helstu tónlistarkonur landsins, hér er hinu kvenlega fagnað og í öndvegi er útgáfa af Human Behaviour eftir Björk.  

Mynd með færslu
 Mynd: Valur Gunnarsson
Við safn um sögu pólska hersins.

Í Póllandi er stríðið helst að finna þar sem stríð eiga heima, á söfnum. Eitt slíkt er safn pólska hersins, stofnað 1920 í nýsjálfstæðu Póllandi rétt eftir fyrri heimsstyrjöld og stríð gegn rússneskum rauðliðum sem fylgdi í kjölfarið. En stríðssögu Póllands var síður en svo lokið. Það versta var enn eftir. Og kannski er það enn eftir, eins og röðin fyrir framan flóttamannamiðstöð Úkraínumanna hinum megin við götuna minnir á. Í röðinni inn á safnið réttir maðurinn fyrir framan mig fram úkraínskt vegabréf ásamt kreditkorti, líklega fær hann afslátt út á hið fyrrnefnda. Og það fer vel á því þar sem saga Úkraínu og Póllands er um margt samtvinnuð og það löngu áður en þeir héldu HM í karlafótbolta sameiginlega árið 2012. Jafnvel lykilsetningar í þjóðsöngvum þeirra ljóma eins. Pólland hefur ekki glatast enn. Né heldur Úkraína. 

Ef nafnið Úkraína merkir, eins og sumir halda fram, landamærasvæði, þá merkir Pólland flatlendi. Og það er einmitt þetta flatlendi mitt á milli Berlínar og Moskvu sem er blessun þeirra og bölvun. Þar sem engin eru fjöllin er erfitt að segja hvar eitt land byrjar og annað endar og þeirri spurningu hefur oftar en ekki verið svarað með hervaldi. 

Lengi vel höfðu Pólverjar reyndar betur. Á meðan Þýskaland var í molum sökum svarta dauða og Rússland sömuleiðis eftir innrás Mongóla mynduðu Pólverjar sambandsríki með Litáen sem náði allt frá Eystrasalti til Svartahafs og þess sem nú er Úkraína. Þegar Þýskaland var enn lagt í rúst í 30 ára stríðinu og Rússland var að jafna sig á ógnarstjórn Ívans grimma, snemma á 17. öld, brugðu Pólverjar á leik. Um tíma voru þeir komnir alla leið til Moskvu þar sem þeir settu mann sem sagðist vera Dmítrí, hinn horfni sonur Ívans grimma, í hásætið. Rússar tóku þessu illa, söxuðu hinn falska Dmítrí niður í fallbyssu og skutu honum í áttina að Póllandi. 

SONY DSC
 Mynd: Valur Gunnarsson
Wroclaw.

Stórveldið Pólland

Eigi að síður var Pólland-Litáen á 17. öld eitt víðlendasta ríki Evrópu. Trúfrelsi ríkti í landinu og þegnarnir voru ekki aðeins kaþólskir heldur einnig orþódox, Lúterstrúar, gyðingar og jafnvel múslímar í suðri. Það er ástæða fyrir því að í Varsjá var, allt til 1943, stærsta gyðingahverfi Evrópu. Samveldi þetta var einnig fremur lýðræðissinnað, í stað einvalda á borð við þá sem réðu ríkjum í Austurríki, Prússlandi og Rússlandi ríkti hér nokkurs konar aðalsmannaveldi þar sem Sejm, eða þingið tók helstu ákvarðanir. Ekki voru þó allir bændur ánægðir með að vera undir oki pólsks aðals, ekki frekar en þeir vildu vera rússneskir ánauðarbændur, og héldu af stað til landamærahéraðanna, Úkraínu, sem að nokkru leyti höfðu tæmst af fólki með innrás mongóla. Hér gátu þeir verið frjálsir en urðu að sæta árásum tyrkneskra og tatarskra þrælaveiðara jafnt sem Pólverja og Rússa. Hinir frjálsu bændur kölluðu sig kósakka og urðu svo færir í að hrinda árásum nágrannanna að þeir gátu stofnað sitt eigið ríki um stund. Til þeirra rekja Úkraínumenn uppruna sinn enn í dag. 

Stórveldistími Póllands var ekki endilega góður tími fyrir alla Pólverja sem þurftu að berjast við þýsku ríkin í vestri, Rússa í austri og Tyrki í suðri. Verstir af öllum voru Svíar, sem flæddu yfir Eystrasalt frá norðri og eyddu öllu sem á vegi þeirra varð allt suður til Pragar. Segir í Góða dátanum Svejk að þar hafi þeir valdið svo miklum usla að í Prag sé enn töluð sænska á börunum eftir miðnætti. Hið sænska skelfingartímabil stóð í fimm ár frá 1655 til 1660 og er kallað Potop, eða hrunið. Endalokin voru þó enn ekki komin, Pólverjar komust aftur á lappirnar og unnu frækinn sigur á Tyrkjum við Vín árið 1683. Batt þetta enda á síðustu sókn Tyrkja inn í Evrópu og Úkraínumenn telja sig hafa átt þátt í sigrinum og jafnvel fundið upp Vínarkaffið þegar þeir komust yfir kaffibirgðir Tyrkja.

En þakklæti Austurríkismanna í garð Pólverja fyrir að hafa bjargað þeim frá Tyrkjum stóð stutt. Öld síðar áttu þeir eftir að skipta Póllandi upp á milli sín ásamt Prússum og Rússum. Stórveldistímanum var lokið og Póllandi var líka lokið um stund. En ekki hafði það fyllilega glatast og myndi rísa á ný þegar fram liðu stundir. 

SONY DSC
 Mynd: Valur Gunnarsson

Erfitt er að segja nákvæmlega hvers vegna Pólland, sem eitt sinn gnæfði yfir, fór halloka fyrir nágrönnum sínum á 18. öld. Sumir hafa kennt því um að ákvarðanatökuferli þingsins hafi verið flóknara en hjá einveldiskonungunum og keisurunum í kring, og því gat verið erfitt að samræma aðgerðir þegar aðalsfjölskyldurnar unnu stundum hver gegn annarri. Eða kannski var óhjákvæmilegt að Pólverjar fengju að kenna á því þegar bæði þýsku ríkin og Rússland hófu að þenja sig út eftir að hafa komið sér aftur á lappirnar.  

Hernaðarlistin breyttist mjög við upphaf 18. aldar með tilkomu byssustingsins. Sömu hermenn gátu nú bæði skotið og stungið og voru ekki lengur varnarlausir á meðan hólkarnir voru hlaðnir. Stolt Póllands hafði löngum verið riddaraliðið, hússararnir, sem með vængi á bakinu ruddu öllu á undan sér, en drógust nú aftur úr. Pétur mikli í Rússlandi og Friðrik mikli í Prússlandi gerðu miklar hernaðarumbætur á öldinni. Framtíðin var þeirra en Pólland hvarf af kortinu um sinn.

Sú list að gera göt í fólk

Sagan snýst að miklu leyti til um hver er færastur í að gera göt í fólk og á safninu gefur að líta hin ýmsu tól og tæki til starfans, nokkurs konar vélbyssu frá síðmiðöldum, sem tók svo langan tíma að hlaða að aðeins var hægt að nota þær einu sinni í hverri orustu; sverð hússara sem voru á lengd við spjót og svo oddhvöss að þau gátu stungist í gegnum brynju. Hugvitsamlegast af öllu er persneskur hnífur sem opnast eins og skæri og spennir brynjuna upp á meðan oddur stingst út á milli í hið mjúka hold fyrir innan. 

Klárustu menn allra tíma hafa beitt snilligáfu sinni á þessu sviði. Leonardo Da Vinci þróaði flugvélar og skriðdreka, sem þó virkuðu aldrei jafn vel og hann hafði vonað, inn á milli þess sem hann málaði myndir. Friðarsinninn Albert Einstein átti óbeint þátt í þróun kjarnorkusprengjunnar, sem virkaði betur en björtustu vonir höfðu staðið til, inn á milli þess sem hann skilgreindi tímann. 

Leiði óþekkta hermannsins. Mynd: Valur Gunnarsson.

Stundum fer hernaðarlistin langt fram úr læknavísindunum og fyrri heimsstyrjöld var dæmi um slíkt. Um 280.000 Bretar, Frakkar og Þjóðverjar misstu andlitið eða hluta þess í stríðinu og hafði slíkt ekki gerst áður á þessum skala. Það varð tl þess að lýtalækningarnar voru fundnar upp. Andlit voru sett saman aftur með því að setja í þau hold og bein úr öðrum hlutum líkamans. Þó kom þetta ekki í veg fyrir stöku harmsögur. Breskur hermaður skrifaði til kærustu sinnar að hann hefði fundið sér aðra kærustu, svo illa farinn var hann að hann vildi ekki að hún aumkaði sig yfir hann og gerðist hann einsetumaður upp frá því. Stríðið tekur allt. Og andlitið líka. 

Og hver er síðan niðurstaðan af allri þessari vinnu við að gera göt í fólk? Hana má sjá á þeim stað þar sem við öll endum að lokum en sumir götóttir og langt fyrir aldur fram. Í Powązki-kirkjugarðinum eru margar grafir sem bera dánarár á milli 1939 og 1945, ungir karlmenn að miklu leyti en einnig fólk af öðrum kynjum og á ýmsum aldri. Rétt hjá er gyðingakirkjugarðurinn sem ber vitni um enn hryllilegri atburði þegar gyðingahverfið var þurrkað út árið 1943 og gerðu gyðingar skammvinna uppreisn en allt kom fyrir ekki. Ári síðar gerðu Pólverjar sjálfir uppreisn og var Varsjá svo gott sem jöfnuð við jörðu þegar Þjóðverjar brutu hana einnig á bak aftur. Skömmu síðar frelsuðu Sovétmenn borgina undan nasistum, eða eins og Pólverjar sögðu á þeim tíma, „góði guð, sendu okkur rauðu pláguna til að vernda okkur fyrir svarta dauða.“ Í Póllandi lauk þeim hörmungartímum sem hófust árið 1939 loks endanlega hálfri öld síðar. Í Úkraínu standa þeir enn.

Mynd: Börkur Gunnarsson / Börkur Gunnarsson

Það á enginn ömmu frá Wroclaw 

Næsta stopp er Wrocław. Það er sunnudagur og allar lestir eru fullar. Rúturnar reynast fullar líka. Loks fæ ég far með BlablaCar, sem er svona skutlarafyrirbæri þar sem maður borgar í bensín. Unga parið sem keyrir mig er á leið til Þýskalands þar sem þau starfa, hann er tölvunarfræðingur og hún hjúkrunarfræðingur. Þau skilja mig eftir á lestarstöðinni í Wrocław, þar sem eitt sinn var Þýskaland. 

Það á enginn ömmu frá Wrocław. Eða í það minnsta ekki langömmu. Sjálfur á ég langömmu frá Danzig, sem nú heitir Gdańsk en var á millistríðsárunum fríríki á milli Póllands og Þýskalands og um leið bitbein sem átti eftir að leiða af sér heila heimstyrjöld. Þjóðverjar töpuðu henni eins og hinni fyrri og borgin var innlimuð i Pólland en íbúarnir reknir á brott til þess sem eftir var af Þýskalandi. Síðar áttu eftir að brjótast út mótmæli meðal hafnarverkamanna þar í borg undir merkjum Samstöðu og undir stjórn Lech Wałęsa, sem átti stóran þátt í falli kommúnismans. 

En það var ekki bara í kringum Danzig sem landamærin breyttust. Þjóðverjar höfðu sótt austur allt frá hámiðöldum en voru nú reknir yfir ána Oder og ríkinu að auki skipt í tvennt. Oder rennur einmitt í gegnum Wrocław, sem fram til 1945 hét Breslau og var ein stærsta borg Þýskalands. Pólverjar voru hraktir burt úr austurhéruðum sínum sem nú tilheyrðu Sovétríkjunum en fengu í staðinn austurhéruð Þýskalands, sem kallaði á mikla mannflutninga. Meira að segja þeir Úkraínumenn sem eftir voru innan hinna nýju landamæra Póllands, um 200.000 manns, voru fluttir vestur til þeirra landbúnaðarhéraða sem nú stóðu auð. Og í borgunum var ekki lengur neina gyðinga að finna.  

Fáir gripir lýsa sögu borgarinnar betur en panóraman um orustuna við Racławice, og það þótt orustan sjálf teljist varla til meiriháttar viðburða. Panórömur voru vinsælar á seinni hluta 19. aldar, risavaxin hringlaga málverk sem sýndu orustur eða aðra stórviðburði. Listrænt gildi þótti ekki ýkja mikið enda leikurinn ekki til þess gerður heldur var gangi orustunnar lýst eftir því sem fólk gekk meðfram verkinu svo að það var nánast eins og að vera viðstaddur viðburðinn sjálfan. Panóraman hér er frá 1894. Nokkrum árum síðar kom kvikmyndin til sögunnar og panórömur duttu úr tísku. 

Mynd með færslu
 Mynd: Valur Gunnarsson
Orrustan við Raclowice.

Hin pólska panórama

Orustan við Racławice átti sér stað 100 árum fyrr þegar Prússar, Rússar og Austurríkismenn voru teknir að skipta Póllandi á milli sín. Til þess að halda því sem eftir var af ríki sínu sáu Pólverjar að þeir yrðu að ráðast í miklar endurbætur. Stjórnarskrá var rissuð upp í Varsjá 1791 og var sú fyrsta í heimi utan Bandaríkjanna. Upp á þetta máttu stórveldin ekki horfa enda voru þetta byltingartímar og einvaldskonungar tókust á við lýðveldissinna vestar í álfunni. Árið 1794 laust saman við Racławice, þar sem pólskir bændur með ljái söxuðu stórskotalið Rússa niður og pólskt riddaralið hrakti þá endanlega af vígvellinum. 

En gleðin stóð stutt og á endanum tókst einvaldsöflunum að bæla niður lýðveldistilburðina bæði í Póllandi og Frakklandi. Í það minnsta í bili, því árið 1830 braust aftur út bylting í París og breiddist brátt yfir til Póllands sem nú var að mestu á valdi Rússa. Einnig nú börðu Rússar uppreisnina niður með harðri hendi. Fredrick Chopin, sem var nýfluttur til Parísar frá Póllandi, bölvaði sínum viðkvæmu og kvenlegu fingrum sem ekkert kunnu annað en að spila á píanó og höfðu aldrei svo mikið sem drepið einn einasta Moskóvíta. Ekki síður bölvaði hann Frökkum fyrir að standa aðgerðarlausir hjá, og ekki í síðasta sinn i pólskri sögu. 

Önnur og stærri uppreisn var gerð árið 1862 en með álíka árangri. Pólverjar búa í erfiðu hverfi og eiga oft í stríðum við sér stærri ríki. Því hefur myndast hefð fyrir fyrirfram töpuðum uppreisnum, sem eru ekkert minna dásamaðar fyrir því. Sú stærsta átti sér stað í Varsjá árið 1944 þegar Pólverjar risu upp eftir fimm ára ógnarstjórn Þjóðverja. Uppreisnin skilaði engu nema því að borgin var lögð í rúst, heil kynslóð ungra Varsjárbúa svo gott sem þurrkuð út, og landið varð varnarlaust fyrir ásælni Stalíns sem brátt fylgdi í kjölfarið. En það mátti reyna. 

Panóraman sjálf á sér einnig sína sögu. Hún var fyrst sett upp í Lemberg sem þá var pólskumælandi borg í Austurríska keisaradæminu. Eftir fyrri heimsstyrjöld varð borgin hluti af hinu endurreista Póllandi og hét nú Lwow, en eftir enn eitt stríðið nefndist hún Lviv og var nú í Úkraínuhluta Sovétríkjanna. Tekist hafði að fela panórömuna í stríðinu og nú heimtuðu Pólverjar að henni yrði skilað til þess sem eftir var af Póllandi, ásamt öðrum menningarverðmætum. Var þetta gert en sá galli var á að kalda stríðið var hafið og ótækt þótti að sýna orustu á milli bandalagsþjóðanna Pólverja og Rússa. Það var ekki fyrr en 1985 að panóraman fékkst sett upp aftur, og nú í Wroclaw, en þá var nýr maður kominn til valda í Moskvu með nýjar hugmyndir og nefndist Mikhail Gorbatsjov. Síðan þá má segja að sumt hafi gengið til baka. 

Mynd með færslu
 Mynd: Valur Gunnarsson
Flóttamenn leita aðstoðar í miðstöð sem komið var upp vegna stríðsins.

Örvinglun eldri flóttamanna

Fáir hafa stutt Úkraínumenn jafn mikið og Pólverjar í núverandi stríði, og hafa flestir flóttamenn leitað hingað til lands. Sylwia er pólsk og frá Wrocław en lærði kvikmyndafræði á Íslandi og vann fyrir sér á Fosshóteli á meðan hún safnaði fyrir heimsreisu um Asíu. Þegar núverandi stríð hófst fór hún á lestarstöðina til að taka á móti flóttamönnum. Segist hún hafa talið sig hafa verið reiðubúna undir það sem hún myndi sjá þar en að þetta hafi tekið meira á hana en hún átti von á. Börnin skildu varla hvað var að gerast en gamla fólkið starði út í tómið. „Hvers vegna fær það ekki að deyja í friði á sínum heimaslóðum,“ segir hún og bætir við að ungar einstæðar mæður muni einhvern veginn koma sér fyrir en gamla fólkið hefur glatað öllu. 

Sylwia segir að nokkur hræsni sé í viðhorfum til Úkraínumanna, áður var litið á þá sem undirstétt en nú séu þeir taldir til bræðraþjóðar. Og þó verður að segjast eins og er að það er breyting til batnaðar. Stöku flóttamenn hafa einnig komið frá Rússalandi og Hvíta-Rús til að flýja ógnarstjórnir Lúkasjenkos og Pútíns. Sylwia segir þó ekki allt vera með blóma í Póllandi. Pólitískur rétttrúnaður ráði hér ríkjum og líklegt að til dæmis að leikhús eða listsýningar missi styrki frá ríkinu ef innihaldið stangast á við ráðandi hugmyndafræði. 

Mynd með færslu
 Mynd: Valur Gunnarsson

Hér ber að nefna að sá pólítíski rétttrúnaður sem Sylwia nefnir er ekki sá sem Jordan Peterson eða aðrir álíka myndu kannast við heldur þvert á móti hið gagnstæða. Pólsk list á helst að sýna fram á að Pólverjar séu frómir kaþólikkar sem eiga sér merkustu sögu í heimi og samkynhneigð og þungunarrof eru tabú. Sylwia segir Þjóðverja hafa verið duglega að gera sögu sína upp en ekki Pólverjar sem álíta sig fyrst og fremst vera fórnarlömb sögunnar sem ekkert illt geti gert. Margir af þeim hafi vissulega svikið gyðinga í hendur nasista en um þetta er ekki rætt. 

SONY DSC
 Mynd: Valur Gunnarsson
Minnisvarði um fjöldamorðin í Katyn.

Pólverjar klofnir í tvennt

Og hvar er svo pólski uppreisnarandinn í dag? Sylwía bendir mér á veggjakrot sem víða má finna og sýnir fyrst fimm stjörnur og svo þrjár. Þetta merkir „Jebać Pis,“ eða til fjandans með þann stjórnmálaflokk sem nú fer með völd og nefnist Pis, sem er skammstöfun fyrir „Lög og réttlæti“. Boðskapurinn er ritskoðaður en samt skilja hann allir. Pis-flokkurinn telst til hægri popúlista og er undir stjórn Kaczyńskis sem þó gegnir ekki opinberu embætti en ræður því sem hann vill. Kaczyński er verri tvíburinn af tveimur slæmum, en bróðir hans lést í flugslysi við Katyn í Hvíta-Rús árið 2010 þar sem átti að minnast 25.000 pólskra liðsforingja sem Sovétmenn myrtu 70 árum fyrr. Bræðurnir höfðu skipt á milli sín embætti forseta og forsætisráðherra en þegar hófsamari Kaczyński-bróðirinn var fallinn frá héldu hinum engin bönd. Þungunarrof hefur verið bannað með öllu, jafnvel eftir nauðgun eða þegar líf móður er í hættu. Í staðinn fær fólk 500 zloty, um 30.000 kall, á mánuði fyrir hvert barn sem það eignast. 

Pólverjasamfélagið á Íslandi hefur lýst yfir vanþóknun sinni á þessum lögum en Sylwia segir pólska þjóð klofna nánast í tvennt. Sjálf hyggst hún þó búa hér áfram því hún kunni vel við borgina. Amma hennar flutti til héraðsins Efri-Sílesíu, þar sem borgina Katowice er að finna, en sjálf flutti hún til Neðri-Sílesíu og Wrocław. Og líklega er nokkuð frjálslyndari andi hér en í Varsjá. Hún segir alla vita að borgarstjórinn er samkynhneigður en að hann geti ómögulega komið út úr skápnum því það myndi boða endalok stjórnmálaferils hans. 

Mynd með færslu
 Mynd: Valur Gunnarsson
Forsetahöllin.

Viðhorf til samkynhneigðs og trans fólks og jafnvel kvenréttinda er eitt af því sem skilur Austur-Evrópu frá Vestur-Evrópu þessa dagana. Pútín hefur gert sér mat úr þessu og virðist líta á sig sem helsta útvörð íhaldssamra gilda gagnvart Evrópusambandinu er hyggst leysa upp öll hjónabönd og þvinga menn til samkynhneigðar, eða því trúa að minnsta kosti margir Rússar.  

Og þó er það svo að það eru einmitt Pólverjar sem eru helstu andstæðingar Pútíns innan ESB. Fyrir þessu liggja sögulegar ástæður, eins og sjá má í panórömunni í Wroclaw jafnt sem í bréfum Chopins á safninu í Varsjá og reyndar í pólskri sögu allri. Orban í Ungverjalandi, sem annars er sammála Kaczyński um margt, hefur farið aðra leið og er helsti bandamaður Pútíns innan sambandsins.

Sylwía segir að það eina góða við þetta stríð sé að Orban er ekki lengur besti vinur ríkisstjórnar Póllands í Evrópu. Saman hafa Ungverjar og Pólverjar stundum barist gegn grundvallargildum sambandsins á borð við mannréttindi fyrir alla. Stríðið er nálægt og Pólverjar sjá að ekki er gott að egna önnur Evrópuríki upp á móti sér og eiga á hættu að standa einir ef til kastanna kemur, eins og gerst hefur svo oft áður í sögunni.