Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Herbert tekur „alla hittarana" á þjóðhátíð í ár

Mynd: RÚV / RÚV

Herbert tekur „alla hittarana" á þjóðhátíð í ár

05.07.2022 - 10:54

Höfundar

Þeir aðdáendur Herberts Guðmundssonar sem eiga miða á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þetta árið geta verið ánægðir með sín viðskipti. Herbert treður enda upp í Dalnum á sunnudagskvöldinu, í fyrsta sinn á ferlinum. Hann kom í Síðdegisútvarpið á Rás 2 til að ræða málið.

Herbert Guðmundsson segir að hann spili fyrir stærsta áhorfendahóp sinn til þessa um komandi verslunarmannahelgi. Hann stígur þá, í fyrsta sinn á ferlinum, á svið á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. 

„Ég er búinn að vera öll þessi ár í bransanum og hef aldrei verið þarna," sagði Herbert í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 og bætti við að hann hefði ekki einu sinni verið meðal áhorfenda í brekkunni í Vestmannaeyjum.

„Þetta er sennilega mesti fjöldi sem ég hef spilað fyrir áður í einu, ef það eru 20 þúsund manns, er það svo mikið?" spyr Herbert glettinn.

Og Herberti verður mikill heiður sýndur í Eyjum. Hann er síðasti tónlistarmaðurinn á svið á sunnudagskvöldinu áður en brekkusöngurinn frægi hefst. 

„Eins og ég segi, þetta er heiður og gaman að fá að upplifa þetta," segir Herbert. Hann segist vera með um 20 mínútna langt prógram og því gefist tími til þess að taka „alla hittarana".

Herbert ræddi við þáttstjórnendur í Síðdegisútvarpinu fyrir helgi. Hlusta má á viðtalið við hann hér í spilaranum að ofan og hér má svo nálgast þáttinn í heild sinni.