
Jens Heiðar Ragnarsson slökkviliðsstjóri segir í samtali við fréttastofu að mun betur hafi farið en á horfðist í fyrstu þar sem starfsfólki Elkem tókst að ráða niðurlögum eldsins að mestu.
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi segir að starfsfólkið hafi haldið eldinum niðri með slökkvitækjum þangað til slökkviliðið mætti.
„Rannsókn málsins er eiginlega ekki hafin. Það kveiknar eldur á jarðhæðinni. við vitum ekki ennþá hvað veldur, hvort það var blossi frá framleiðslunni eða rafmagnsbruni. Það kviknar eldur undir svokölluðum töppunarpalli sem líklega hefur verið glussabruni eða rafmagnsbruni sem viðheldur honum svona,“ segir Álfheiður.
Hún segir að líklega hafi þetta verið óheppni. Stöðva þarf einn ofn af þremur meðan á viðgerð stendur. „Við eigum eftir að meta tjónið betur. Það sem við erum að horfa á núna er vonandi ekki meiri stopptími en vika.“
En þetta hlýtur að vera tekjutap? „Auðvitað þetta er framleiðslutap upp á svona viku og svo eitthvað tjón í tengslum við viðgerðir.“