Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Byssumaðurinn ræddi fjöldamorð á netinu fyrir árásina

05.07.2022 - 17:14
Empty chairs sit along the sidewalk after parade-goers fled Highland Park's Fourth of July parade after shots were fired, Monday, July 4, 2022 in Chicago. (Lynn Sweet/Chicago Sun-Times via AP)
 Mynd: AP - RúV
Robert E. Crimo, maðurinn sem er í haldi lögreglunnar í Chicago vegna skotárásar á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna, birti myndbönd af fjöldamorðum á netinu skömmu fyrir ódæðisverkið.

Í skotárásinni í gær létust sex og yfir 38 særðust. Þau tóku þátt í hátíðarhöldum í tilefni dagsins, í Highland Park í Chicago. Crimo lagði á flótta eftir árásina, en var handsamaður af lögreglu skömmu síðar. Breska ríkisútvarpið greinir frá því að hann hafi verið dulbúinn í kvenmannsfötum til þess að reyna að hverfa í fjöldann.

Birti tónlistarmyndbönd um fjöldamorð

Samkvæmt fréttastofu NBC hafði Crimo verið opinskár í netheimum, þar sem hann lýsti hrifningu sinni á fjöldamorðum. Hann kom fram sem rappari í frítíma sínum undir nafninu Awake. Á samfélagsmiðlinum Youtube hafði hann birt nokkur tónlistarmyndbönd og í því nýjasta fjallaði hann um skotárás í skóla, þar sem hann var sjálfur staddur, umvafinn bandaríska fánanum.

Búið er að fjarlægja myndböndin af Youtube og loka aðgangi Crimo að fjölda samfélagsmiðla, þar sem hann var virkur þátttakandi á spjallborðum um morð og annað glæpsamlegt athæfi. Hann hefur ekki enn verið ákærður vegna árásarinnar.