Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Stórt skref fyrir mig“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Stórt skref fyrir mig“

04.07.2022 - 20:16
Sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson verður eini íslenski keppandinn á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum sem hefst í lok næstu viku í Eugene, Oregon í Bandaríkjunum. Hann heldur utan til Bandaríkjanna á morgun. Hilmar segist vel geta barist um sæti í úrslitum á góðum degi, en fari þó rólegur inn í mótið.  

Hilmar Örn sem er 26 ára er Íslandsmethafinn í sleggjukasti og margfaldur Íslandsmeistari. Hann rétt missti af sæti á Ólympíuleikunum í fyrra, en er nú á leið á sitt annað heimsmeistaramót, því hann keppti líka á HM í London 2017.

„Ég er í fínu formi og góður dagur hjá mér skilar mér alveg örugglega ágætis árangri á þessu móti. Þannig ég er bara ósköp rólegur yfir þessu öllu saman,“ sagði Hilmar Örn eþgar hann ræddi við RÚV í Kaplakrika í Hafnarfirði í dag. Hilmar æfir og keppir með FH og þjálfar einnig hjá félaginu. Hann var einmitt að þjálfa efnilega kringlukastara þegar RÚV bar að garði í dag.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Hilmar Örn Jónsson hefur kastað vel í sumar.

Þegar Hilmar keppti á HM í London fékk hann svokallað kvótasæti, því hann náði þá ekki tilskyldum lágmarksárangri inn á mótið. Hann fer hins vegar á HM í ár vegna þess hve ofarlega hann er á heimslistanum í sleggjukasti, og þar með einn af þeim bestu.

Þarf bara að sanna sig

„Það var náttúrulega alveg stórt skref fyrir mig. Ég fór inn á HM 2017 á kvóta og hef verið að berjast við að komast inn á þessi stórmót síðan þá eiginlega. Þannig það var mjög stórt skref að fara svona inn og það er allt annað. Núna er maður bara hluti af hópnum og þarf bara að fara að sanna sig,“ sagði Hilmar.

Strangar reglur eru um árangur til að komast inn á HM í frjálsíþróttum. Að þessu sinni verður Hilmar eini íslenski frjálsíþróttamaðurinn sem keppir á HM. Aðeins 32 bestu sleggjukastarar heims fá að keppa á HM. „Ég fer inn á mótið í raun og veru sá 25. besti. En góður dagur hjá mér skilar mér kasti upp á svona 75 - 76 metra. Það hefur yfirleitt dugað áfram til að komast í úrslit. Ég stefni auðvitað bara á að eiga sæmilegan dag og sjá hvað það gerir,“ sagði Hilmar Örn á sinn hógværa hátt.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Hilmar Örn kastar sleggjunni á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum í júní.

Hilmar heldur til Bandaríkjanna á morgun og mun æfa þar með hópi Svía og undirbúa sig fyrir HM. Þjálfari Hilmars er sænskur. „Ég er búinn að horfa til þessa tiltekna heimsmeistaramóts í mörg ár. Í raun alveg frá því ég vissi að HM yrði haldið þarna í Eugene í Oregon. Þetta er svona einn af mínum uppáhalds völlum. Ég hef keppt þarna þrisvar. Tvisvar þegar ég var í háskólanum í Bandaríkjunum og einu sinni keppti ég á HM unglinga þarna. Þannig ég var mjög ánægður þegar ég loksins fékk staðfestingu á því að árangur minn á heimslista skilaði mér sæti inn á HM.“

HM er stóra mótið - EM verður bónus

Árið í ár er óvenjulegt fyrir frjálsíþróttafólk að því leyti að HM sem átti að vera í fyrra var þá frestað til ársins í ár vegna COVID-19 og Ólympíuleikanna í Tókýó sem færðir voru frá 2020 til 2021. Það er því bæði EM og HM í frjálsíþróttum í sumar. EM verður haldið í München í Þýskalandi í ágúst og eins og staðan er, er Hilmar með nógu góðan árangur til að komast inn á EM líka.

„Allur fókusinn í ár hjá mér hefur bara verið á heimsmeistaramótið. Það var alltaf markmiðið að komast inn á það. EM verður svona algjör bónus. Að komast inn á EM líka er samt auðvitað markmið líka og fellur vonandi með mér bara þarna á HM og með þeim árangri sem ég hef þegar náð í keppni það sem af er ári,“ sagði sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson.

RÚV mun sýna beint frá öllum keppnisdögum HM í frjálsíþróttum 15. - 24. júlí. Hilmar keppir í undanrásum sleggjukastsins strax á fyrsta degi, 15. júlí.