Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Herafli Rússa á norðurslóðum áhyggjuefni

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Það er full ástæða til að hafa varann á gagnvart Rússum á norðurslóðum segir Bryndís Haraldsdóttir fulltrúi Íslendinga á ársþingi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Aðal umfjöllunarefni þingsins er stríð Rússa í Úkraínu. Ársfundur þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, fer fram í Birmingham á Englandi þessa dagana.

Fulltrúar Alþingis á þinginu eru þingmennirnir Bryndís Haraldsdóttir Sjálfstæðisflokki, Ágúst Bjarni Garðarsson Framsóknarflokki og Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu.

Rússar byggja markvisst upp herafla á norðurslóðum

Bryndís Haraldsdóttir einn fulltrúa Alþingis á þingi ÖSE fjallar sérstaklega um málefni norðurslóða og hefur lagt fram ályktun á þinginu tengda þeim. Ályktunin snýr fyrst og fremst að loftslagsmálum en ein afleiðinga hlýnunar á norðurslóðum eru opnanir siglingaleiða. Bryndís segir mikilvægt að höfða til samstarfsþjóða í ÖSE að tryggja að friður haldist á norðurslóðum. „Það sem er áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga, búandi á þessu svæði, er að Rússar eru auðvitað nágrannar okkar og Rússar eru sú þjóð sem hefur verið að byggja markvisst upp herafla sinn á norðurslóðum á síðustu árum. Þannig að ég held að, einmitt í ljósi þess að við sjáum að Rússar bera enga virðingu fyrir alþjóðalögum, að þá er full ástæða til þess að hafa varann á því sem þeir eru að gera á norðurslóðum,“ segir Bryndís.

Stríðið í Úkraínu til umfjöllunar

Stríðið í Úkraínu er megin umfjöllunarefni þings ÖSE. Rússar og Hvít-Rússar ættu að eiga sæti á fundinum en fengu ekki vegabréfsáritun til Bretlands. Þeir hafa lýst mikilli óánægju með það og segja vettvanginn ekki hlutlægan. „Það er auðvitað í þessu eins og öðru alþjóðasamstarfi að það er ekki hægt að sitja við borðið með Rússum. Ekki í dag eins og staðan er,“ segir Bryndís.

Fyrir þinginu liggja harðar ályktanir gegn stríðinu og brotum Rússa á alþjóðalögum. Ein þeirra gengur út á að meina ríkjum sem gerist uppvís að því að brjóta alþjóðalög þátttöku í samstarfinu, þannig sé möguleiki að Rússum gæti verið vísað úr starfinu. Bryndís segir nokkuð eindrægan stuðning við málstað Úkraínu ríkja á þinginu og að áhersla hafi verið lögð á að stríðinu ljúki á forsendum Úkraínu. „Mér finnst sérstaklega mikil harka hjá nágrönnum Úkraínu, sem er mjög skiljanlegt, um að þetta stríð verður að vinnast af Úkraínu. Það má ekki fara svo það verði bara samið um vopnahlé því þá óttast fólk að með því sé í rauninni bara a verið að íta boltanum áfram.“

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir