Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Gleðin breyttist í harm á örskotsstundu

04.07.2022 - 11:13
epa10051272 Prime Minister Mette Frederiksen (R) and Minister of Justice Mattias Tesfaye speak to media at doorstep at Field's shopping center, the day after Sunday's shooting, in Copenhagen, Denmark, 04 July 2022. Copenhagen Police confirm that at least three people have been killed.  EPA-EFE/Mads Claus Rasmussen  DENMARK OUT
 Mynd: EPA
Tuttugu og tveggja ára Dani sem grunaður er um voðaverkið í verslunarmiðstöðunni Field's á Amager í gær, var leiddur fyrir dómara klukkan ellefu að íslenskum tíma í Københavns Byret, héraðsdómi Kaupmannahafnar. Ákæruvaldið hefur farið fram á að réttarhaldið fari fram fyrir luktum dyrum.

Mette Frederiksen forsætisráðherra og Mathias Tesfaye dómsmálaráðherra Danmerkur, mættu á vettvang skotárásarinnar og héldu blaðamannfund á ellefta tímanum fyrir utan Field's. 

Frederiksen segir að varla væri hægt að ímynda sér meiri andstæður en þær sem danska þjóðin hafi upplifað um helgina. Danir hefðu fagnað vegna Tour de France hjólreiðakeppninnar sem haldin var í Danmörku í fyrsta sinn og skemmt sér á tónlistarhátíðinni á Hróarskeldu. 

Voðaverkið í Field's á sunnudag hafi snúið gleðinni í harm á örskotsstundu. Hún minnir þau sem voru í verslunarmiðstöðinni á að leita sér aðstoðar og ræða við fagaðila. Enginn kemst í gegnum svona lífsreynslu aleinn, segir Frederiksen.

Borgin er örugg

Tesfaye segir að Kaupmannahöfn sé örugg. Ekkert bendi til þess að frekari árásir séu yfirvofandi á þessari stundu. Því sé engin ástæða til að halda sig heima, lífið í borginni gangi áfram sinn vanagang. Lögreglan er með aukinn viðbúnað með það að markmiði að tryggja öryggi borgaranna, segir Tesfaye. 

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur staðfest að alls 30 einstaklingar hafi hlotið skaða í árásinni og í kjölfar hennar. Af þeim slösuðust 20 í troðningi þegar fjöldi fólks leitaðist við að yfirgefa verslunarmiðstöðina með hraði.

Leiddur fyrir dómara

Maðurinn sem handtekinn var fyrir utan Field´s kl. 17:48 að dönskum tíma í gær, er grunaður um morð á þremur einstaklingum, 17 ára dönskum pilti, 17 ára danskri stúlku og 47 ára rússneskum ríkisborgara sem búsettur er í Danmörku.

Þá er hann grunaður um tilraun til manndráps fjögurra til viðbótar sem liggja alvarlega særð á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Um er að ræða tvær danskar konur, 16 ára sænska stúlku og fimmtugan sænskan karlmann. 

Hann var leiddur fyrir dómara klukkan ellefu að íslenskum tíma í Københavns Byret, héraðsdómi Kaupmannahafnar. Ákæruvaldið fer fram á gæsluvarðhald yfir manninum.