
Zelensky segir illskuna sífellt færast í aukana
Zelensky segir harða bardaga háða í Donbas auk þess sem hernaðaraðgerðir Rússa færist í aukana í Kharkiv. Hann segir eldflaugum rigna yfir landið sem skilji eftir sig slóð eyðileggingar og fjölda látinna.
AFP-fréttaveitan hefur eftir íbúa smábæjarins Siversk í Donetsk-héraði að árásir standi linnulaust daga og nætur. Haft er eftir sjónarvottum að klasasprengjum hafi verið varpað á íbúðabyggð í Sloviansk í hjarta Donbas á föstudag.
Sprengjurnar dreifðust um stórt svæði og hæfðu bæði byggingar og fólk sem var úti við. Igor Konashenkov, talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins, segir árásum beint að hernaðarmannvirkjum Úkraínumanna og segir tjón þeirra mikið.
Zelensky kveðst hlakka til alþjóðlegrar ráðstefnu um enduruppbyggingu Úkraínu, sem hefst í Sviss á mánudag. Hann segir að byggja þurfi fjölda bæja og borga alveg frá grunni auk þess sem brýnt sé að fara í endurbætur á samfélaginu sjálfu.
Evrópusambandið leggur hart að Úkraínumönnum að uppræta spillingu í landinu í ljósi þess að aðild er innan seilingar. Zelensky áréttaði í ávarpi sínu að öll uppbygging í landinu muni kosta milljarði Bandaríkjadala.