Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Líbíumenn mótmæla orkuskorti og upplausn

03.07.2022 - 07:49
epa10037971 Aguila Saleh Issa (C-L), Speaker of the House of Representatives of Libya, Stephanie Williams (C), United Nations Special Adviser on Libya and Khalid al-Mishri (C-R), Chairman of the High Council of State of Libya, attend the High-level Meeting on Libya Constitutional Track at the United Nations in Geneva, Switzerland, 28 June 2022.  EPA-EFE/DENIS BALIBOUSE / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Þúsundir Líbíumanna flykktust út götur helstu borga landsins um helgina til að mótmæla síversnandi lífskjörum, orkuskorti og upplausn í stjórnmálum.Sameinuðu þjóðirnar hafa reynt að miðla málum meðal deilandi pólítískra fylkinga án teljandi árangurs.

Mótmælendur ruddust inn í þinghúsið í borginni Tobruk austanvert í landinu, létu greipar sópa um skrifstofur og kveiktu í hluta hússins. Í gær róaðist ástandið í Tobruk nokkuð en á samfélagsmiðlum hefur verið hvatt til frekari mótmæla. 

Mótmælendur í höfuðborginni Tripólí og stórborginni Benghazi kröfðust umbóta, kosninga og að næg orka yrði tryggð.

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvetur mótmælendur og stjórnvöld til stillingar og málamiðlana svo koma megi í veg fyrir frekari upplausn í landinu. 

Fátækt hefur steðjað að landsmönnum undanfarinn áratug eftir að einræðisstjórn Moammars Gaddafi var steypt að stóli. Mótmælendur veifuðu margir hverjir grænum stjórnarfána hans nú um helgina.

Þrátt fyrir að neðanjarðar sé að finna einhverjar mestu olíulindir Afríku hafa landsmenn mátt búa við eldsneytis- og orkuskort. Iðulega hefur verið rafmagnslaust víða um land allt að átján tíma á sólarhring. 

Ekki náðist samkomulag um helstu ágreiningsmál andstæðra pólítískra fylkinga í Líbíu á samningafundi sem haldinn var í Genf í Sviss að undirlagi Sameinuðu þjóðirnar í síðustu viku. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV