Fljótlega eftir innrásina í Úkraínu hófu Rússar árásir á Mariupol, sem er á milli Rússlands og Krímskaga. Fjölskyldan var heima að borða hádegismat þegar fyrstu sprengjuvélarnar flugu yfir. Næstu tvo sólarhringa skýldu þau sér á stigagangi blokkarinnar sem þau bjuggu í. Viðmælanda okkar er annt um öryggi fjölskyldunnar og kemur því ekki fram undir nafni eða í mynd.
„Þarna sváfum við með ungu barni okkar á ganginum. Þegar byrjað var að sprengja af miklum þunga við húsið hófu slökkviliðsmenn að flytja konur og börn í neyðarskýli,“ segir hún.
Var á 2. hæð spítalans rétt fyrir árásina
Fjölskyldan stoppaði stutt við í skýlinu. Þar voru líka sprengjuárásir. Næst voru þau flutt á fæðingarspítala og héldu að mestu til í kjallaranum. 9. mars var sprengjum varpað á spítalann. „Bókstaflega fimmtán mínútum áður var ég með barninu mínu á annarri hæðinni. Það var verið að gefa henni dropa því hún var veik og ég fékk það mjög sterkt á tilfinninguna að eitthvað myndi gerast og vildi koma okkur í skjól og ég gat ekki beðið þar til búið væri að gefa henni dropana.“ Eyðileggingin var mest á annarri hæð spítalans og þar voru sængurkonur og einnig konur sem voru að fæða á þeirri stundu.