Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Finna öryggi á Íslandi eftir hörmungar í Mariupol

03.07.2022 - 21:00
Mynd: AP / AP
Fjölskylda frá Maríupol, sem fengið hefur hæli hér á landi, var á fæðingarspítalanum sem Rússar sprengdu níunda mars. Eftir árásina höfðu þau engan annan stað til að dvelja á en í rústum spítalans. Þar héldu þau til í ellefu stiga frosti. 

Fljótlega eftir innrásina í Úkraínu hófu Rússar árásir á Mariupol, sem er á milli Rússlands og Krímskaga. Fjölskyldan var heima að borða hádegismat þegar fyrstu sprengjuvélarnar flugu yfir. Næstu tvo sólarhringa skýldu þau sér á stigagangi blokkarinnar sem þau bjuggu í. Viðmælanda okkar er annt um öryggi fjölskyldunnar og kemur því ekki fram undir nafni eða í mynd. 

„Þarna sváfum við með ungu barni okkar á ganginum. Þegar byrjað var að sprengja af miklum þunga við húsið hófu slökkviliðsmenn að flytja konur og börn í neyðarskýli,“ segir hún.

Var á 2. hæð spítalans rétt fyrir árásina

Fjölskyldan stoppaði stutt við í skýlinu. Þar voru líka sprengjuárásir. Næst voru þau flutt á fæðingarspítala og héldu að mestu til í kjallaranum. 9. mars var sprengjum varpað á spítalann. „Bókstaflega fimmtán mínútum áður var ég með barninu mínu á annarri hæðinni. Það var verið að gefa henni dropa því hún var veik og ég fékk það mjög sterkt á tilfinninguna að eitthvað myndi gerast og vildi koma okkur í skjól og ég gat ekki beðið þar til búið væri að gefa henni dropana.“ Eyðileggingin var mest á annarri hæð spítalans og þar voru sængurkonur og einnig konur sem voru að fæða á þeirri stundu. 

FILE - Mariana Vishegirskaya stands outside a maternity hospital that was damaged by shelling in Mariupol, Ukraine, Wednesday, March 9, 2022. Visheirskaya was taken to another nearby hospital where she¬Ýgave birth¬Ýthe following day to a baby girl she named Veronika. ‚ÄúWe were lying in wards when glass, frames, windows and walls flew apart,‚Äù she told AP, lying next to her newborn.¬Ý"We don‚Äôt know how it happened. We were in our wards and some had time to cover themselves. Some didn‚Äôt.‚Äù (AP Photo/Mstyslav Chernov, File)
 Mynd: AP - RÚV

Viðmælandi okkar var því til allrar hamingju í kjallara spítalans ásamt barni sínu þegar árásin var gerð. „Vinkona mín, sem var líka nágranni minn í blokkinni, hún lá inni á spítalanum og missti barnið sitt, komin átta mánuði á leið. Svo fóru svo mörg brot í kvið hennar að hún missti barnið.“

Eftir árásina var fjölskyldan send í skjól á annan spítala. Fljótlega gerði Rússlandsher sprengjuárásir á nærliggjandi hús og slasað fólk streymdi á spítalann. „Þetta var fólk sem hafði misst fætur og hendur. Staðan í borginni var mjög slæm, engin lyf var að fá því ekki var hægt að send neitt þangað vegna umsátursins.“

Sváfu í frosti í kjallara spítala

Ekki voru til vistir fyrir alla á spítalanum og því hafði fjölskyldan ekki um annað að velja en að leita aftur skjóls á fæðingarspítalanum. Þar var þó enn drykkjarvatn og matur. „Það var mjög kalt, frost, mínus 11 gráður. Við sváfum í frostinu í kjallaranum í fötunum og barnið mitt veiktist.“

Aðeins leyft að flýja á rússneskt yfirráðasvæði

Rúmum tveimur vikum síðar náðu Rússar spítalanum á sitt vald og fjölskyldunni var ekki leyft að fara út undir bert loft. „Þegar mér varð ljóst að ég gæti ekki brauðfætt barnið mitt þá brotnaði ég saman og gtrét og bað um að við yrðum send eitthvert af því að ég gat ekki veitt barninu mínu það sem það þurfti og ég vissi ekki hvað ég ætti til bragðs að taka.“ Meðan á umsátrinu stóð elduðu þau úti á bálkesti, það var ekki lengur hægt þegar Rússar höfðu náð yfirráðum yfir spítalanum, auk þess sem vistir voru orðnar af skornum skammti.

Ættingjarnir trúðu áróðri rússneskra stjórnvalda

Rússnesku hermennirnir sögðu aðeins hægt að fara á yfirráðasvæði Rússa, að þeir væru búnir að ná hálfu landinu og þau gætu gleymt því að fara til Úkraínu. Þau fóru til fjarskyldra ættingja í suðurhluta Rússlands. „Það var mjög erfitt andlega, að dvelja þar. Meira að segja fólkið í þessari fjölskyldu trúði því að Rússlandsher væri að frelsa okkur og borgina. Það var ekki til neins að reyna að útskýra þetta fyrir þeim.

FILE - A Ukrainian serviceman takes a photograph of a damaged church after shelling in a residential district in Mariupol, Ukraine, March 10, 2022. (AP Photo/Evgeniy Maloletka, File)
Hafnarborgin Mariupol er nánast rústir einar eftir margra vikna sprengjuárásir Rússa en nokkur hundruð hermenn Azov-hersveitanna halda enn til í Azov-stálverksmiðjunum í borginni ásamt nokkur hundruð óbreyttum borgurum sem þar leituðu skjóls. Mynd: AP

Þau komust til Eistlands og íhuguðu að fara til Þýskalands en var sagt að þar væri staðan slæm; fólk svæfi á beddum í neyðarskýlum. Þau heyrðu af því að tiltölulega fáir hefðu flúið til Íslands og ákváðu að eyða síðustu peningunum sínum í flugmiða hingað. Þau vissu lítið um landið og þekktu ekki neinn. Viðmælandi okkar segir að sér líði fyrst og fremst eins og heima á Íslandi. „Við leigjum íbúð, maðurinn minn fékk vinnu, bráðum fer ég líka að vinna.“ Hún segir lífið komið í rútínu.

Íbúar Mariupol sviptir öllu

Viðmælandi okkar finnur fyrir öryggi á Íslandi og er þakklát fyrir þær móttökur sem Úkraínumenn hafa fengið. „Það er okkur afar mikilvægt. Á þessu augnabliki í kjallaranum rann upp fyrir mér að ég hafði verið svipt öllu. Meira að segja þeim möguleika að fara út undir ferskt loft. Það þýddi ekki lengur að hugsa um íbúð, vinnu eða starfsframa. Það var ekkert eftir nema líf fólks, sem hafði verið lagt í rúst. Þetta var stór borg með hálfri milljón íbúa. Líf allra íbúanna er í rúst.“

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir