Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Áhafnir EasyJet og Ryanair viðhalda verkfallsaðgerðum

03.07.2022 - 05:30
epa10045562 Travelers wait near Ryanair's check-in desks at Josep Tarradellas Barcelona–El Prat Airport, in Barcelona, Spain, 01 July 2022. The fifth day of strike by Ryanair's cabin crew (TCP) and the first one by EasyJet's has caused delays of flights to and from Barcelona's airport.  EPA-EFE/ENRIC FONTCUBERTA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Áhafnir lággjaldaflugfélaganna EasyJet og Ryanair á Spáni ætla að leggja niður störf á nokkrum völdum dagsetningum í júlí. Kröfur starfsfólksins snúa bæði að launakjörum og starfsaðstöðu.

Aðgerðir starfsfólks Ryanair hófust 24. júní og Easyjet á föstudaginn var. Fimmtán flugferðum var aflýst í gær og tafir urðu á 175 til viðbótar. Stéttarfélag starfsfólks Ryanair segir vinnustöðvun fyrirhugaða dagana 12. til 15. júlí, 18. til 21. og 25. til 28. júlí.

Það nær til þeirra tíu flugvalla á Spáni sem flugfélagið notar. Áhafnir EasyJet hyggjast leggja niður störf fyrstu þrjár helgarnar í júlí.

Lidia Arasanz, talsmaður stéttarfélags áhafna Ryanair, segir engra annara kosta völ í ljósi þess að eigendur flugfélagsins hunsi kröfur um samningagerð og kjósi frekar að viðskiptavinir þess verði strandaglópar á flugvöllum Spánar.

Aðgerðir áhafna flugfélaganna tveggja hafa valdið mikilli truflun á ferðalögum og Arasanz býst við að þannig verði það í næstu lotu einnig. Verkföllin valda miklum vanda innan fluggeirans sem hefur átt í mesta basli við að ráða nýtt starfsfólk eftir að hömlum var aflétt vegna kórónuveirufaraldursins. 

Sú staða er álitin helsta ástæða þess að hundruðum flugferða var aflýst til og frá Bandaríkjunum í gær og eins í innanlandsflugi en landsmenn eru á faraldsfæti í tilefni þjóðhátíðardagsins 4. júlí. Á fjórða þúsund ferða var frestað.

Tugum flugferða um Charles de Gaulle flugvöll í París hefur verið aflýst síðustu daga frá því verkfall slökkviliðsmanna hófst þar á fimmtudaginn.