
Fylgið hrynur áfram af VG
Sjálfstæðisflokkur mælist sem fyrr stærstur, fengi tæplega 23 prósent, litlu minna en í alþingiskosningunum í haust. Framsókn er á pari við kosningasigurinn í haust, fengi 17,5 prósent ef kosið yrði í dag.
Píratar tvöfalda fylgi sitt frá kosningunum, mælast með 16,1 prósent en fengu 8,6 prósent upp úr kjörkössunum í september. Píratar hafa löngum mælst hærri í könnunum en kosningum.
Samfylking bætir einnig við sig fylgi, 4 prósentustigum nánar tiltekið, og fengi 13,7 prósent atkvæða.
Fylgið hrynur hins vegar af Vinstri grænum. Flokkur forsætisráðherra fékk 12,6 prósent í kosningunum en mælist nú með einungis 7,2 prósent. Er það í takt við slaka útkomu í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum.
Flokkur fólksins og Viðreisn mælast með álíka fylgi og VG en bæði Miðflokkur og Sósíalistaflokkur mælast undir 5 prósentum og næðu ekki manni á þing.
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er 47,5 prósent en stuðningur við ríkisstjórnina er litlu meiri, 49 prósent.