Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ekki enn fengið greitt úr fæðingarorlofssjóði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einhverjir hafa enn ekki fengið greitt úr fæðingarorlofssjóði en greiðslur áttu að berast á fimmtudag, 30. júní. Að sögn Unnar Sverrisdóttir, forstjóra Vinnumálastofnunar, er um að ræða fámennan hóp. Einstaklingar sem fengu ekki greitt fengu þau svör hjá Vinnumálastofnun í gær að villa væri í kerfinu og greiðslur myndu berast í síðasta lagi 8. júlí.

Unnur segir að um tvöfalda bilun hafi verið að ræða. Fyrst hafi komið upp villa hjá Seðlabankanum sem hafi orðið til þess að hluti þeirra sem áttu að fá greitt úr fæðingarorlofssjóði og atvinnuleysissjóði fengu greitt degi síðar. Um var að ræða nokkuð stóran hóp en að sögn Unnar fengu þeir aðilar send skilaboð um að villa hefði komið upp og að greiðslur myndu berast degi seinna en vanalega. Greiðslurnar koma frá ríkissjóði en allar greiðslur voru sendar frá fæðingarorlofssjóði á fimmtudag. 

Flestir fengu því greitt í gær en ekki allir. Nokkrar konur í fæðingarorlofi sem fréttastofa náði tali af í dag höfðu enn ekki fengið greitt. Þær höfðu leitað svara í gær og verið tjáð að vegna bilunar í tölvukerfi myndu greiðslur berast seint, í síðasta lagi 8. júlí. 

„Þetta var ein villa sem kom upp og varðar fáa, mjög einokað dæmi. Advania gengur í málið strax á mánudaginn,“ segir Unnur. Hún segir að auðvitað sé ekki eðlilegt að fólk fái greitt viku eftir að greiða eigi reikninga en að greiðslur eigi að berast eins fljótt og auðið er.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
urduro's picture
Urður Örlygsdóttir