Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Verkfalli flugmanna SAS frestað þar til í fyrramálið

Mynd með færslu
 Mynd: SAS
Samningaviðræðum milli stjórnenda skandínavíska flugfélagsins SAS og stéttarfélaga flugmanna verður haldið áfram í nótt. Fyrirhuguðu verkfalli flugmannana hefur verið frestað til klukkan ellefu í fyrramálið að staðartíma.

Sænska ríkisútvarpið hefur það eftir Marianne Hernæs, aðalsamningamanni SAS, en áður hafði verkfallinu verið frestað til klukkan fimm. Mat danska ríkisútvarpsins er að nægur gangur hljóti að vera í viðræðum til að vert sé að halda þeim áfram.

Rebecca Rosenvinge, samskiptastjóri stéttarfélags sænskra flugmanna segir engin ný tíðindi séu af samningaviðræðum. Komi til verkfalls hefur það áhrif á ferðalög um þrjátíu þúsund flugfarþega. Þá þyrfti að aflýsa milli tvö og þrjú hundruð flugferðum daglega.

Karyn Nyman,samskiptastjóri SAS kveðst orðlaus vegna yfirlýsingar Samtaka norskra flugmanna þess efnis að þau séu reiðubúin til gera SAS gjaldþrota taki það ekki upp skandínavíska módelið varðandi launakjör.

Hún segir þau orð benda til algers skeytingarleysis flugmannanna sem ættu að gera sér grein fyrir alvarlegum fjárhagsvanda félagsins. 

Martin Lindgren, formaður félags þeirra sænsku flugmanna sem starfa hjá SAS segir félagið hins vegar fara á svig við lög og reglur um stéttarfélög, sem sé óásættanlegt.