Venjast ábyrgðinni sem fylgir að hafa vinnu

Mynd: UngRÚV / UngRÚV

Venjast ábyrgðinni sem fylgir að hafa vinnu

01.07.2022 - 15:36

Höfundar

Vinnuskólinn var formlega stofnaður árið 1951 í þeim tilgangi að ungt fólk hefði eitthvað að gera yfir sumartímann.

Vinnuskólann í Reykjavík þekkja eflaust margir en hann er í boði fyrir grunnskólanemendur í 8. - 10. bekk. Reykjavíkurborg stofnaði skólann fyrst árið 1951 en síðan þá hafa mörg sveitarfélög fylgt á eftir. Við hittum skemmtilegan Vinnuskólahóp við Árbæjarskóla og fengum að kynnast þeirra störfum. 

„Ég sótti um af því mig langaði fyrst og fremst bara að eiga pening fyrir útlönd og til þessa að geta eytt þeim bara þar, og líka bara til að hafa eitthvað að gera yfir sumarið,“ segir Hera Arnardóttir í Vinnuskólanum í Reykjavík. Heru þykir almennt gaman í Vinnuskólanum, en segir að köngulærnar og pöddurnar vera það versta við starfið. 

Markmið Vinnuskólans er að undirbúa nemendur fyrir vinnumarkaðinn, einnig fá nemendur alls konar fræðslu sem þau geta nýtt núna og í framtíðinni. Vinnutíminn er mismunandi eftir því í hvaða bekk ungmennin eru í. Hver dagur hjá þeim einkennist  af vinnu, leik og almennri gleði. 

Oddur Sverrisson nemandi í skólanum  var önnum kafinn við að reita arfa þegar við hittum hann, en hann telur að Vinnuskólinn sé mikilvægur fyrir ungt fólk því þar fái þau rútínu, læri hvernig þau eigi að fara með peningana sem þau vinna sér inn og venjist ábyrgðinni að hafa vinnu.