Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Karlmaður á þrítugsaldri, sem grunaður er um að hafa orðið nágranna sínum í Barðavogi að bana með barsmíðum þann 4. júní var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til föstudagsins 29. júlí á grundvelli almannahagsmuna, að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Mikill viðbúnaður var við Barðavog í Reykjavík laugardagskvöldið 4. júní eftir að tilkynning barst um meðvitundarlausan mann. Maðurinn fannst liggjandi fyrir utan heimili sitt með alvarlega höfuðáverka og endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. Í beinu framhaldi var nágranni hins látna, karlmaður fæddur árið 2001 handtekinn, grunaður um verknaðinn. Hann var dæmdur í fjögurra vikna gæsluvarðhald daginn eftir sem nú hefur verið framlengt um fjórar vikur.