
Mjög margar tilkynningar um aukaverkanir frá Íslandi
- Sjá einnig: Halda áfram að rannsaka röskun á tíðahring
Ísland á fulltrúa í sérfræðinefnd hjá Evrópsku lyfjastofnunni sem metur ábata og hefur eftirlit með lyfjum sem eru á markaði, þar á meðal bóluefnunum. „Það er bara verið að skoða áhrif á tíðablæðingar enn frekar. Sérfræðinefndin er að fara yfir öll gögn og kalla eftir frekari gögnum sem eru á bakvið þessar tilkynningar. Flestar tilkynningarnar sem hafa borist Evrópsku lyfjastofnuninni eru frá Norðurlöndum og mjög margar frá Íslandi.“
Rúna segist ekki vita hvers vegna fleiri tilkynningar bárust frá Norðurlöndunum en öðrum Evrópulöndum. Það sé hins vegar mjög gott til að hægt sé að fylgjast nánar með aukaverkunum. „Mögulega hefur umræðan stýrt því en líka er kannski bara minna feimnismál á Norðurlöndum og á Íslandi að fylgja þessu eftir. “
Yfir fjögur þúsund tilkynningar í heildina
Í íslenska Facebook-hópnum Tíðahringur bólusettra kvenna gegn covid 19 eru tæplega þrjú þúsund meðlimir. Tilkynningar sem bárust Lyfjastofnun í fyrra vörðuðu meðal annars óreglulegar tíðablæðingar eða breytingar á þeim, tíðateppu, tíðaþurrð, fyrirtíðaspennu, fyrirtíðaverki, milliblæðingar, seinkun blæðinga og blettablæðingar. Rúna segir að viðbúið hafi verið að fjöldi tilkynninga um aukaverkanir myndi berast Lyfjastofnun í kjölfar bólusetninga gegn covid.
„Við fengum um 4000 tilkynningar og um 800 voru tengdar þessu. Þetta er auðvitað mikill fjöldi tilkynninga sem mátti búast við því það var verið að bólusetja mjög stóran hóp af fólki, suma oftar en einu sinni og suma oftar en tvisvar á tiltölulega skömmum tíma.“